Safnamiðstöð opnuð almenningi
Söfnun á munum og minjum um Varnarliðið og sögu Keflavíkurflugvallar hafin hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar
Eiríkur Páll Jörundsson er forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar. Hann mun opna dyr safnamiðstöðvarinnar í Ramma á Fitjum á Safnahelgi á Suðurnesjum þar sem gestum gefst tækifæri að sjá ýmsa fágæta muni sem eru í vörslu Byggðasafnsins. Það kennir ýmissa grasa á safninu og margt merkilegra muna enda komin 75 ár frá því Ungmennafélag Keflavíkur stofnaði Byggðasafn Keflavíkur sem lagði grunninn að því sem Byggðasafn Reykjanesbæjar er í dag.
„Á þessum árum hófst skipulögð söfnun muna og mynda sem síðan var lagt inn í byggðasafnið sem formlega var stofnað fyrir 40 árum af bæjarfélögunum Keflavík og Njarðvík. Í safninu í dag eru meira en 60.000 gripir sem allir eru skráðir, flokkaðir og aðgengilegir hér í hillum í þessu húsi,“ segir Eiríkur Páll þegar útsendarar Víkurfrétta hittu hann að máli í safnamiðstöðinni á dögunum. Þess má geta að viðtal við Eirík má sjá í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 20:30.
„Við erum lánsöm að hafa gott pláss utan um okkar muni og gengið vel frá þeim í hillum. Það er það vel gengið frá þessum munum að fólk hefur gaman af að labba hér um og skoða í hillurnar“. Þá má geta þess að um 70% af safnkostinum hefur verið ljósmyndaður en myndirnar fara ásamt upplýsingum um munina inn á vefinn Sarpur.is sem er sameiginlegur vefur fyrir öll söfn á Íslandi. Þar getur fólk flett upp mununum og sótt fróðleik um þá.
Byggðasafn Reykjanesbæjar býr yfir góðum húsakosti í safnamiðstöðinni í Ramma á Fitjum. Það má segja að húsakosturinn sé einsdæmi á Íslandi en flest söfn á Íslandi líða fyrir húsnæðisskort. Síðustu mánuði hefur verið unnið að endurskipulagningu innan veggja safnamiðstöðvarinnar og enn betra skipulagi komið á hlutina. Þar er gott pláss fyrir fleiri muni en þar með er ekki endilega átt við að safnið geti endalaust tekið við munum til varðveislu. Allir hlutir eru þó vandlega skoðaðir með það fyrir augum hvort þeir hafi varðveislugildi og varla líður sú vika að ekki komi munir á safnið. Fjölmargir leggja leið sína í Byggðasafn Reykjanesbæjar til að kanna hvort hlutir eigi frekar heima á safni en að fara á haugana eða á nytjamarkaði.
Þá má segja að Byggðasafni Reykjanesbæjar fylgi risavaxið verkefni sem er saga Keflavíkurflugvallar og þeirrar starfsemi sem þar var og er. Nýlega komu á safnið tveir slökkvibílar sem Varnarliðið var með í þjónustu sinni. Annar þeirra er stærsti slökkvibíll sem smíðaður hefur verið í heiminum. Hann tekur pláss á við tveggja herbergja blokkaríbúð og var hugsaður til að berjast við elda í flugvélum. Hinn slökkvibíllinn er hefðbundnari í sniðum og þjónaði slökkviliðinu og er hugsaður fyrir húsbruna.
„Við erum að fara á fullt í þetta að safna skipulega munum og minjum af öllu tagi sem tengjast Keflavíkurflugvelli, ekki bara sem tengdust slökkviliðinu og hernum, heldur einnig munum sem tengdust daglegu lífi og samskiptum fólks hér á svæðinu við Varnarliðið,“ segir Eiríkur Páll.
Söfn hafa öllu jöfnu ekki geymslur sínar opnar almenningi og því er það kjörið tækifæri að leggja leið sína í safnamiðstöðina í Ramma á Fitjum á safnahelginni. Þar má m.a. skoða slökkvibílanna sem nefndir voru hér að framan en einnig verður þar risavaxið leikfangasafn sem er í vörslu Byggðasafns Reykjanesbæjar. Eiríkur segir að það verði enginn svikinn af því að ganga um safnamiðstöðina og sjá það sem þar ber fyrir augu.
Nánar má kynna sér viðburði Safnahelgar á Suðurnesjum á safnahelgi.is