Rocky býður Íslendinga velkomna til Philadelphia
- Einn af nýjum vinsælum áfangastöðum Icelandair er Philadelphia
Það er misjafnt hvað borgir víða um heim eru þekktar fyrir en þrátt fyrir magnaða menningu og sögu, fjölbreytni í mat og drykk og fleira skemmtilegt þá er það boxarinn Rocky Balboa sem kemur oft upp í hugann þegar borgin Philadelphia er nefnd á nafn. Boxarinn sem var leikinn af Silvester Stallone eins og flestir vita, hljóp um götur borgarinnar með aðdáendur á eftir sér og svo upp 72 þrep að listasafni borgarinnar í fyrstu bíómyndinni um Rocky. Hlaup kappans í myndinni varð heimsfrægt og það þótti auðvitað við hæfi að setja upp styttu af honum við safnið og hún dregur að sér milljónir ferðamanna á hverju ári.
Philadelphia er einn nýjasti áfangastaður Icelandair en félagið áætlar að gera borgina að heilsársviðkomustað í framtíðinni. Ekki er ólíklegt að borgin geti orðið vinsæl meðal Íslendinga því hún hefur upp á margt að bjóða og tekur vel á móti manni.
James Kenny, borgarstjóri Fíladelfíu sagði við fréttamann VF að borgarbúar væru vinalegir og myndu taka vel á móti Íslendingum. „Gefið ykkur á tal við þau og spyrjið um hvað sem er. Við erum mjög vinaleg, mun vinalegri en New York búar,“ sagði hann og hló. Í borginni og nágrenni hennar í Delaware dalnum búa rúmlega 7 milljónir manna en þegar maður röltir um götur hennar og miðbæ þá upplifir maður ekki yfirþyrmandi traffík og mannmergð. Hún er samt næststærsta borgin á austurströnd Bandaríkjanna á eftir New York.
Sagan á hverju strái
Borgin er þekkt fyrir merka sögu í uppbyggingu landsins og í henni má finna mörg áhugaverð söfn eins og t.d. um bandarísku byltinguna en fyrir rúmum tveimur öldum síðan var sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna undirrituð þar sem og stjórnarskrá landsins. Þar er upphaf bandaríska þingsins og Philadelphia var fyrsta höfuðborgin áður en Washington DC tók við. Það er mjög áhugavert að skoða fyrsta þinghúsið og fá stutt söguágrip heimamanna á staðnum.
Margir Evrópubúar frá Írlandi, Ítalíu og Þýskalandi fluttu til borgarinnar á 19. öld en í kjölfarið einnig blökkumenn frá Afríku og Púertó Ríkó en Philadelphia var á þessum tíma sterk iðnaðarborg og þá var næga atvinnu að hafa. Í seinni tíð hafa Pólverjar sótt mikið til borgarinnar sem og Grikkir. Forráðamenn borgarinnar hafa ekki farið leynt með það að hún tekur vel á móti innflytjendum.
Philadelphia er falleg borg þar sem Delaware áin setur svip sinn á umhverfið. Arkitektúr hefur notið sín eins og sjá má á byggingum í borginni. Hún er vinsæl námsborg og þangað sækja námsmenn víðs vegar að í miklum mæli í góða háskóla. Borgin er miðdepill viðskipta- og atvinnulífs í Pennsylvaníuríki og það má m.a. sjá á mörgum skýjakljúfum í miðborginni. Gert er ráð fyrir byggingu margra nýrra skýjakljúfa á næstu tveimur áratugum. Þá er í borginni einn virtasti barnaspítali í heimi, Philadelphia childrens hospital. Fyrsti spítalinn í Bandaríkjunum opnaði í borginni sem og banki, fyrsta kauphöllin, margir skólar og fleira mætti nefna þar sem hlutirnir fóru að rúlla í Philly. Menning og listir eru í hávegum höfð. Þúsundir veggmynda vekja t.d. athygli um alla borgina. Við erum að tala um heimsborg vegglistamanna. Fáir missa af því að skoða Liberty bjölluna en hún var fyrst notuð sem tákn um frelsi. Þá eru íbúar borgarinnar líka þekktir fyrir að vera miklir íþróttaáhugamenn. Í Philly hafa verið þekkt lið í amerískum fótbolta, körfubolta, hafnabolta og íshokkíi.
Miklu meira en Philly steikarsamloka
Heimamenn eru mjög duglegir að sækja hundruð veitingahús og bari í borginni en það eru yfir 300 veitingahús og barir í borginni þar sem hægt er að sitja úti við. Veitingastaðir í heildina eru margfalt fleiri og það getur verið erfitt að velja hvar maður vill setjast inn að snæðingi. Úrval staða og fjölbreytnin er það mikil. Fyrr á árum, en líka ennþá, er steikarsamloka eitthvað sem borgarbúar grípa oft í. Eins og „pylsa með öllu“ á Íslandi. En líklega er meiri stemmning í því að fara á marga skemmtilega bari/veitingastaði borgarinnar sem eru nær óteljandi.
Þá má ekki gleyma verslunum. Öll helstu merkin og búðirnar eru í Philly. Íslenskir ferðamenn verða ekki fyrir vonbrigðum þar og á næstunni mun „mollunum“ og „out-letum“ fjölga segir borgarstjórinn.
Ekki er hægt að skrifa um fjörið í Philadelphia öðruvísi en að minnast á Reading Terminal Market. Það er magnaður matarmarkaður borgarinnar og hefur verið á sama stað aðra öld. Stemmningin þar er skemmtileg.
Sem sagt, mjög margt í boði í listum, menningu, íþróttum, mat og drykk. Er það ekki það sem flestir vilja? Philadelpia er mjög vinsæl heim að sækja og það er ekki skrýtið. Það eru um 40 milljónir ferðamanna sem sækja borgina ár hvert sammála.
Það eru margir sem pósa við styttuna af Rocky Balboa.
Veitingastaðir og barir í hundraða tali.
Zahav er ísraelskur veitingastaður í borginni, sá vinsælasti á TripAdvisor sumarið 2017.
Delaware brúin er mikið mannvirki. Sumir skella sér í jóga við brúna, aðrir veiða í ánni.
Þúsundir skoða Liberty bjölluna.
Rúmlega aldargamall Reading Terminal matarmarkaðurinn dregur að sér gesti á hverjum degi.
Saga landsins er í hávegum höfð, upphaf þingsins og fleira tengt.
Hundruð skýjakljúfa einkenna borgina.
Heimamenn fögnuðu komu Icelandair á viðeigandi hátt.