Ríkissjóður kaupir land af Reykjanesbæ fyrir 1230 milljónir króna
Reykjanesbær seldi í gær Ríkissjóði spildur úr jörðunum Kalmanstjörn og Junkaragerði á Reykjanesi ásamt jarðhitaauðlindum. Fyrir landið greiðir Ríkissjóður 1.230 milljónir króna.
Samhliða kaupum ríkisins á jörðunum er gengið frá greiðslum á fjármagnstekjuskatti sem Reykjanesbær skuldaði Ríkissjóði, skatti sem varð til þegar Reykjanesbær seldi hlut sinn í HS Orku. Samið hafði verið um greiðslu á þeim skatti til fimm ára, en með sölunni á landinu í dag er gengið frá þeim skatti, greiðslu upp á 900 milljónir króna.
Reykjanesbær keypti jarðirnar Kalmanstjörn á sínum tíma til að tryggja að hún færi ekki í einkaeigu þegar HS Orka var að fara að meirihluta í einkaeigu „Við buðum ríkinu að kaupa landið af okkur en ríkisstjórnin hafði lýst þeirri skoðun sinni að jarðauðlindir ættu að vera í eign þjóðarinnar,“ segir Árni Sigfússon í samtali við Víkurfréttir.
Reykjanesbær hefur leitað álits á því hvort fjármagnstekjuskatturinn sem þau greiddu í gær sé sanngjarn. Þegar önnur sveitarfélög hafa selt hluti sína í öðrum orkufyrirtækjum t.d. á Vestfjörðum eða hjá Landsvirkjun, þá var enginn fjármagnstekjuskattur greiddur af sveitarfélögunum. Þess er bara krafist af sveitarfélögum sem áttu í Hitaveitunni. Skýringin er að aftan við Hitaveitu Suðurnesja var „hf.“ og þá hefur ríkið heimild til að búa til fjármagnstekjuskatt, jafnvel þótt þetta hafi bara verið sveitarfélög sem seldu. Í viðtali við Víkurfréttir í meðfylgjandi myndskeiði segir Böðvar Jónsson að vonandi náist samningar um þetta álitamál, án þess að þurfa að fara með málið fyrir dómstóla.
Í meðfylgjandi myndskeiði eru viðtöl sem tekin voru við söluna á landinu á Reykjanesi í gærdag.