Laugardagur 12. janúar 2013 kl. 17:38

Rík í hjartanu - video

Víkurfréttir hafa útnefnt þau Brynjar Leifsson og Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur í hljómsveitinni Of Monsters and Men sem „Menn ársins“ á Suðurnesjum fyrir árið 2012. Þau Nanna, sem kemur úr Garðinum, og Brynjar, sem er uppalinn Keflvíkingur, eru vel að heiðrinum komin en þau eru nú í frægustu hljómsveit Íslands sem átti eina vinsælustu plötu síðasta árs í Bandaríkjunum.  Hróður sveitarinnar hefur borist út um allan heim og hafa þau leikið á tónleikaferðalögum vítt og breitt um heiminn á liðnu ári. Þau Brynjar og Nanna Bryndís fóru yfir ótrúlegt ár í viðtali við Eyþór Sæmundsson, blaðamann Víkurfrétta.


Hvernig líst ykkur á það að vera menn ársins á Suðurnesjum árið 2013?

Nanna: Þetta er algjör snilld. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Þetta er mjög skemmtilegur heiður.

Hvernig var árið hjá ykkur í stuttu máli?

Nanna: Við hófum árið í hljóðveri við að taka upp alþjóðlegu útgáfuna af plötunni okkar. Við tókum þar upp tvö ný lög. Svo fórum við í okkar fyrsta túr til Ameríku í mars. Í kjölfarið á því þá fórum við til Evrópu, Ástralíu og enduðum svo árið aftur í Ameríku.

Ykkur hefur varla grunað þessa velgengni í upphafi árs?

Brynjar: Nei, þetta varð allt miklu stærra en nokkur hafði þorað að láta sig dreyma um. Þetta er samt miklu erfiðara en maður bjóst við. Ég hélt að maður gæti sofið til hádegis og slappað af en við þurftum alltaf að vakna klukkan átta. Fjölmiðlarnir hafa verið grimmir við okkur.

Nanna: Við höfum verið að ferðast út um allt og maður hugsaði með sér í byrjun hversu mikil snilld það væri að geta séð svo mikið. Við erum eiginlega ekki búin að sjá neitt. Það eina sem við sjáum er umhverfið í kringum tónleikastaðina.

Hvað stendur upp úr á þessu ári?

Brynjar: Að ná að selja gullplötu í Bandaríkjunum eða yfir 500 þúsund eintök. Einnig að spila á Lollapalooza hátíðinni í Chicago og öllum þessum tónlistarhátíðum sem maður hafði bara heyrt um en aldrei farið á.

Nanna: Það eru mörg augnablik sem maður man eftir þegar ég lít til baka eins og á Lollapalooza þegar köku var kastað upp á sviðið. Það eru mörg frábær augnablik sem við eigum frá þessu ári.

Eru einhverjar rokkarasögur frá árinu?

Nanna: Já, kannski ein. Mér tókst að brjóta gítar í miðjum tónleikum. Það var reyndar alveg óvart. Ég var að lemja trommutakt á gítarnum mínum en lamdi óvart í gegnum hann. Það getur verið að það hafi litið rokkaralega út en líklega var þetta bara hálf kjánalegt. Ég er bara klaufi.

Hvernig hófst tónlistarferill ykkar hér heima á Suðurnesjum?

Brynjar: Þegar ég var í fjórða bekk þá fór ég að læra á píanó í Tónlistarskólanum í Keflavík. Ég vildi hins vegar alltaf læra á rafmagnsgítar. Ég fór svo að læra á gítar hjá Ómari Guðjónssyni þegar ég var 12 ára og lærði í átta ár á rafmagnsgítar. Svo var ég að spila inn á milli með Finnbirni félaga mínum úr Sandgerði. Við spiluðum eiginlega ekkert opinberlega en æfðum mikið og skemmtum okkur.

Nanna: Ég byrjaði ung að væla í mömmu um að mig langaði að spila á píanó. Mömmu fannst hins vegar auðveldara að láta mig bara fá gítar og sendi mig í tónlistarskóla þegar ég var 13 ára. Svo leiddi eitt af öðru og ég fór fljótlega að semja lög eftir að ég byrjaði í tónlistarskólanum.

Þið voruð bæði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Voruð þið mikið að spila opinberlega á þeim tíma?

Nanna: Ég var alltaf að setja mig í óþægilegar aðstæður og spila á sal í skólanum. Ég var alltaf eitthvað að ota mínu frumsamda efni að liðinu í FS. Of Monsters and Men spilaði reyndar einu sinni í FS sem er mjög minnisstætt. Akkúrat þegar við erum að spila þá er allt í einu ákveðið að gefa fríar pulsur og fólk hreinlega tjúllaðist. Það er ógleymanlegt.

Hvernig varð hljómsveitin Of Monsters and Men eiginlega til?

Nanna: Ég hafði verið að spila mikið með mitt eigið efni og ákvað að fara í hringferð um landið ásamt hópi sem heitir Trúbatrixur. Ég var eitthvað feimin að fara ein þannig að ég fékk Brynjar til að koma og spila með mér seinni hlutann af ferðinni. Það gekk svo skínandi vel að við ákváðum að halda samstarfinu áfram. Raggi bættist svo í hópinn og þegar leið að Músíktilraunum þá bætum við Arnari við á trommur og ákváðum að vera hljómsveit.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar ykkar í tónlist?

Nanna: Sem unglingur hlustaði ég rosalega mikið á The Cure. Ef ég hugsa eitthvað lengra til baka þá er ég komin í eitthvað rugl.

Brynjar: Það var til strengjalaus gítar heima og ég var alltaf að horfa á myndina The Help með Bítlunum þegar ég var 4-5 ára. Bítlarnir voru eiginlega fyrsta tónlistarástin hjá mér. Ég elskaði þessa plötu og þessa mynd.

Fylgist þið mikið með innlendri tónlist?

Brynjar: Já ég myndi segja það. Ég keypti mér nýju plötuna með Ómari Guðjónssyni, fyrrum gítarkennaranum mínum, fyrir skömmu. Hún er rosalega góð. Svo hlustum við rosalega mikið á Moses Hightower.

Nanna: Já, við hlustum öll mjög mikið á Moses Hightower. Steini sem er að spila á hljómborð með okkur núna er einmitt í þeirri sveit þannig að það er sterk tenging.

Er einhver íslensk/erlend hljómsveit eða tónlistarmaður sem ykkur langar til að vinna með?

Brynjar: Ég er að fara að gera plötu með Kanye West. Það er að vísu ekki rétt en það væri fáránlega kúl.

Nanna: Þegar við förum á túr til Evrópu þá kemur Mugison með okkur sem verður örugglega ótrúlega gaman. Við náum kannski að spila eitthvað með honum í hljóðprufum. Ég er mikill aðdáandi Mugison og hlustaði mjög mikið á hann þegar ég var yngri.

Er einhver einn sem ræður í hljómsveitinni og semur öll lögin?

Nanna: Nei, þetta fer allt mjög lýðræðislega fram. Hljómsveitin er á þeim stað sem hún er í dag út af heildinni. Ég, Raggi og Arnar erum oft komin með hugmynd að lagi en við setjum þetta oftast saman í sameiningu.

Brynjar: Það er enginn einræðisherra í bandinu. Þau Nanna og Raggi teikna útlínurnar að lögunum en svo klárum við þetta saman.

Hvað er framundan hjá sveitinni, er verið að semja ný lög um þessar mundir?

Brynjar: Það sem er framundan hjá okkur er mikið af ferðalögum.

Nanna: Það er mjög erfitt að semja þegar maður er á ferðinni. Við reynum að finna tíma á milli tónleika. Þetta er allt öðruvísi ferli en ég er vön. Allt í einu þarf maður að skipuleggja sig en þetta var allt í frekar mikilli óreiðu áður.

Eru komin drög að næstu plötu sveitarinnar?

Nanna: Ég held að allir séu komnir með einhverjar hugmyndir en við höfum ekkert talað um hvað við viljum gera. Það er bara ágætt því hlutirnir gerast oftast best af sjálfu sér. Þegar við setjumst saman og förum að vinna úr þessum hugmyndum þá kemur líklega eitthvað alveg nýtt og annað en við vorum kannski með áform í upphafi. Það gerir þetta svo spennandi.

Mynduð þið telja ykkur vera orðin fræg?

Brynjar: Erlendis þá er það kannski strax eftir tónleikana sem við finnum fyrir einhverju sem gæti talist vera frægð. Svo er það eiginlega bara búið. Ég held að enginn viti hver ég er, ekki einu sinni á Íslandi.

Nanna: Ég hef séð nokkrar svona aðdáendasíður sem eru tileinkaðar mér og það er mjög skrýtið að fólk sé svona mikið að pæla í manni.

Hvernig tekur fjölskyldan þessu?

Brynjar: Hún tekur þessu vel og styður mann áfram. Ég vorkenni aðallega bróður mínum. Hann er alltaf spurður niður í bæ; ‚hvað er að frétta af bróður þínum‘. Hann bjó nýverið til ímyndaðan bróður sem heitir Gulli og þegar fólk spyr hann hvað sé að frétta af mér þá ruglar hann yfirleitt í fólki með þessum nýja ímyndaða bróður.

Nanna: Fjölskyldan er rosalega forvitin. Ég fann fyrir því í jólaboðunum. Ég finn annars ekki fyrir neinni breytingu í framkomu fjölskyldunnar gagnvart mér. Það eru allir mjög spenntir og finnst gaman að fylgjast með.

Eru þið eitthvað að pæla í því hvað frægð ykkar muni endast lengi?

Brynjar: Ég hef ekki pælt mikið í þessu en er meðvitaður að í ljósi þess að allt hefur gerst rosalega hratt þá gæti þetta endað jafn hratt. Það eina sem hægt er að gera er að njóta þess meðan á þessu stendur.

Nanna: Fyrir næstu plötu þá munum við gera það sem okkur langar til að gera. Það gerðum við á fyrstu plötunni. Ef það virkar ekki þá getur maður samt litið til baka og hugsað að maður fylgdi sinni eigin sannfæringu.

Fáið þið frjálsar hendur frá útgáfufyrirtækinu ykkar?

Nanna: Já, ég tel það. Útgáfufyrirtækið er auðvitað með puttana í ýmsum hlutum en tónlistarlega séð höfum við haft mjög frjálsar hendur. Eina skiptið sem það hefur komið upp ágreiningur var þegar við vorum að taka upp myndband við lagið Mountain Sound. Því myndbandi köstuðum við í ruslið því við urðum svo rosalega ósátt með útkomuna. Við ætluðum upphaflega ekki að vera sjálf í myndbandinu en útgáfufyrirtækið vildi fá okkur í myndbandið til að fólk tengdi tónlistina við andlit sem er auðvitað skiljanlegt. Útkoman var hins vegar ekki góð og því var myndbandinu hent.

Ef þið væruð ekki í heimsþekktri hljómsveit, hvað væruð þið þá líklegast að gera?

Brynjar: Draumurinn hjá mér var alltaf að fara í FÍH og læra að verða tónlistarkennari en svo sá ég fram á það að ég væri líklega ekki nógu góður þannig að ég gaf það upp á bátinn. Ég vil læra meira í tónlist og væri einnig til í að læra flug. Að vera kennari í skóla hljómar heldur ekki svo illa.
Nanna: Ég var byrjuð í myndlistarskólanum en þurfti að hætta þar þegar allt fór af stað í hljómsveitinni. Mig langar að fara aftur í skólann seinna og jafnvel líka að læra heimspeki.

Eru þið að verða rík á þessu?

Nanna: Ég var alltaf að vinna í sjoppu þegar ég var yngri og fékk kannski 100 þúsund krónur í mánaðarlaun. Ætli ég sé ekki að fá svona 30 þúsund krónum meira í dag. Til að halda þessu gangandi þá þarf eiginlega að borga öllum öðrum á undan okkur. Það er ótrúlega mikið af fólki í kringum okkur sem vinnur að því að láta þetta ganga upp.

Brynjar: Ég bý ennþá heima hjá mömmu og pabba og ég held að það segi allt sem segja þarf. Þegar við erum á túr þá eru líklega svona 5-7 manns að vinna með okkur. Það er mikið af útgjöldum í þessu sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir. Það voru margir sem héldu að við værum orðin rík eftir að við spiluðum í Jay Leno. Það er alls ekki þannig.

Nanna: Við erum þau seinustu sem fáum bita af kökunni. Við þurfum að sjá til þess að allir aðrir séu glaðir. Þetta skiptir auðvitað einhverju máli því við verðum að geta lifað á þessu en á sama tíma þá erum við að gera hluti sem manni dreymdi um. Ég stressa mig ekki á því þó ég verði ekki rík á þessu. Maður verður bara ríkur í hjartanu.