Reykjanesvirkjun stækkuð á umhverfisvænan hátt - skapar 200 störf
Stækkun Reykjanesvirkjunar kostar um 12 milljarða króna og er áætlað að verkið taki um tvö ár. Gert er ráð fyrir því að á byggingartímanum verði til um 200 störf. Stækkun virkjunarinnar nemur 30 MW og skrifuðu forrráðamenn þriggja verktaka og HS Orku undir samninga þess efnis í húsnæði Reykjanesvirkjunar í morgun.
Framkvæmdin við þess 30 megavatta stækkun er einstök að því leytinu til að hún nýtir jarðhitavökva sem nú þegar er nýttur fyrir núverandi virkjun og því er ekki þörf á því að bæta við borholum og umhverfisrask verður í lágmarki.
Í kringum virkjanir HS Orku hefur byggst upp fjölbreytt starfsemi í Auðlindagarðinum og er gert ráð fyrir því að stór hluti þeirrar raforku sem framleidd verður í nýjum hluta virkjunarinnar verði nýttur í nágrenni hennar af nýjum fyrirtækjum í Auðlindagarðinum. Fyrirtæki í Auðlindagarðinum nýta afgangsstrauma frá tveimur orkuverum HS Orku, í Svartsengi og á Reykjanesi til fjölbreyttrar starfsemi og skapa rúmlega 1200 störf. Meðal fyrirtækja í Auðlindagarðinum sem er einstakur í sinni röð er Bláa Lónið og líftæknifyrirtækið ORF Líftækni. Úti á Reykjanesi eru nokkur fyrirtæki í fjölbreyttri starfsemi í sjávarútvegi, m.a. fiskeldisfyrirtækið Stolt Seafarm sem elur flatfisk til útflutnings.
Jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar við stækkun Reykjanesvirkjunar.