Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 10. september 2019 kl. 16:52

Rass með frumsamið lag um kísilver á heimatónleikum

Heimatónleikar í gamla bænum fóru vel fram og það í fimmta skiptið, miðar seldust sem fyrr upp á mettíma eins og fyrri ár og færri komust að en vildu. Spilað var í átta húsum og var dagskráin fjölbreytt.

Eðalpönksveitin Rass spilaði á Melteignum. Hljómsveitin Rass spilar ósvikið mótmælapönk og er plata þeirra, Andstaða, full af stórpólitískum skilaboðum til Íslendinga til sjávar og sveita. Lög á borð við „Umboðsmaður alþingis“ og „Burt með kvótann“ hafa unnið sér tryggilegan sess í hjörtum aðdáenda hljómsveitarinnar. Fyrir Rassinum fer Óttarr Proppé fyrrum heilbrigðisráðherra, sem einnig er kenndastur við Ham, og undir spila miklir rokkjötnar úr Reykjavík. Hljómsveitin kom mörgum skemmtilega á óvart með afar hressandi tónlist og skemmtilegum flutningi.

Hljómsveitin samdi lag rétt fyrir gigg eftir stuttar umræður um hvaða málefni bera hæst á Suðurnesjum en lagið ber nafnið Sameinað Silikon og er ádeila á Kísilverið í Helguvík.

Hluti af textanum er á þessa leið:

Ég sé ekki skil minna handa
Ég held svei mér að ég geti ekki lengur andað
Gnæfir yfir lon og don
Fæ aldrei losnað við United Silicon

Hér að ofan má sjá flutning hljómsveitarinnar í heild sinni og á mínútu 27:23 má heyra nýja lagið United Silicon.

Rassverjar eru: Arnar Geir Ómarsson trommur, Guðni Finnsson sem var fjarverandi en í hans stað kom Flosi Þorgeirsson á bassa, Óttarr Proppé söngur, S. Björn Blöndal og Þorgeir Guðmundsson á gítar.

Linkur yfir á tónleikana hér!