Ráðherra um einkasjúkrahús: „Vona innilega að þetta verkefni verði að veruleika“
„Ég vona svo innilega að þetta verkefni verði að veruleika,“ sagði Katrín Júlíusdóttir ráðherra ferðamála, aðspurð um uppbyggingu einkasjúkrahúss að Ásbrú í Reykjanesbæ, sem sem rekin verður heilsutengd ferðaþjónusta. „Ég styð alla uppbyggingu á þessu sviði og ég held að þarna geti verið mjög spennandi tækifæri,“ sagði Katrín jafnframt.
Hún segist líta svo á að heilsutengd ferðaþjónusta sé það sem Íslendingar eigi að veðja á til að lengja ferðamannatímann. Nýverið hafa verið stofnuð samtök fyrirtækja í heilsutengdri ferðaþjónustu. Heilsutengd ferðaþjónusta skiptist í tvennt, þ.e. vellíðunarferðaþjónusta og lækningaferðaþjónusta. Katrín segir að hin nýju samtök eiga að koma að þessu máli og skýra út hvað þarna er á ferðinni.
„Ég held að það skipti máli, þar sem þetta er oft óttinn við það óþekkta sem hemur upp hjá okkur þegar svona verkefni koma fram“. Katrín segist skilja óttann „en við þurfum bara að vinna á honum með því að fræða og fara yfir verkefnið mjög vel og vandlega“.