Pólverjar ánægðir með öryggið og rólegheit á Suðurnesjum
Pólverjinn Daría Luczkow elskar Ísland og er búin að stofna fjölskyldu
Daría Luczkow segist elska Ísland en hún hefur verið á Íslandi í tólf ár. Hún flutti til Ólafsvíkur og ætlaði bara að vera í eitt ár og safna sér peningum en Daríu leið strax vel á Íslandi og þremur árum síðar lá leið hennar til Reykjanesbæjar?
„Ég kom hingað til að læra og svo að kenna íslensku,“ segir Daría sem fór í Háskóla Íslands og lærði íslensku og rússensku. Núna kennir hún tungumál í Reykjanesbæ, Pólverjum og fleiri innflytjendum, á íslenskan unnusta og lítið tíu mánaða barn.
Og þú ert ekki á leiðinni heim?
„Nei, ég ætlaði að fara nokkrum sinnum en ákvað að vera áfram á Íslandi og búa hér af því ég elska Ísland. Það er svo gott að búa hér, það er svo þægilegt og rólegt. Ég er örugg hér.“
Daría er kennari og mjög ánægð í starfinu. „Ég er að kenna Pólverjum íslensku og Íslendingum pólsku. Við erum líka með Krakka-akademíu sem er móðurmálskennsla. Við kennum krökkum af pólskum uppruna pólsku sem móðurmálskennsla. Það voru nokkrir foreldrar sem spurðu hvort einhverjir væru til í að kenna þeim pólsku. Svo komu fleiri vinir og ættingjar og núna erum við með 40 krakka sem læra pólsku.“
Er það betra fyrir þau? Eru þau að læra bæði málin?
„Það er gott fyrir þau að læra móðurmálið til að verða betri í íslensku og svo vilja þau læra meira um Pólland, menningu og sögu landsins.“
Nú eru margir Pólverjar á Suðurnesjum. Heldurðu að þau séu öll jafn ánægð og þú að vera hér?
„Vonandi, ég veit það ekki. Það eru margir mjög ánægðir og eru ekki að hugsa um að flytja aftur til Póllands. En ég held að ef þau tala íslensku og skilja Íslendinga þá gengur þeim betur.“
Heldurðu að það séu mjög margir Pólverjar sem vilja setjast að hér á Íslandi til langframa?
Já, ég held það. Pólskir menn segja oft að þeir séu að hugsa um að fara aftur til Póllands en þeim finnst svo rólegt hérna. Krakkar eru öruggir og þau nenna ekki að pæla í því að flytja aftur til Póllands.“
Hver er þín tilfinning, verandi kennari, hvað eru margir Pólverjar sem vilja læra íslensku?
„Já, það eru alltaf fleiri og fleiri. Fyrst þegar ég byrjaði að kenna þá kom fólk sem var búið að vera hér í fimm, sex ár, og byrjaði svo að læra íslensku. En núna kemur fólk frá Póllandi og byrjar strax að læra íslensku tveimur mánuðum seinna.“
Nú eru mörg pólsk börn fædd á Íslandi og þau í rauninni verða bara Íslendingar.
„Já en þau vilja líka tala við fjölskylduna sína í Póllandi, senda þeim skilaboð á pólsku, lesa fréttir á pólsku og lesa og fræðast um Pólland.“
Þegar Daría er spurð hvort Pólverjar séu duglegir að sækja viðburði og taka þátt í samfélaginu á Suðurnesjum með Íslendingum segist hún ekki vita það nógu vel. En hvernig er best að nálgast heimalanda hennar í þeim tilgangi?
„Það væri gott að hafa einhverjar íþróttir fyrir fólk eins og til dæmis hlaup. Það er pólskt hlaup núna 10. nóvember í Reykjavík og það eru 300-400 Pólverjar sem ætla að taka þátt í því.“
En vilja Pólverjar ekki sækja það sem er í gangi hér og sameinast heimamönnum á viðburðum?
„Jú en það er þessi tungumálakunnátta. Þeir vita að þeir þurfa fyrst að læra íslensku og eru kannski feimnir við að tala ensku eða bara pólsku.“
Eru Pólverjar ekki öruggari með að fá störf ef þeir kunna íslensku? Geta þeir fengið betri störf?
„Jú en kannski ekki hér í Reykjanesbæ því við erum með flugstöðina og þar er töluð enska númer eitt.“
Þannig þeir þurfa að læra ensku líka?
Já, við erum að kenna ensku líka. Það eru margir Pólverjar sem koma og læra ensku til að fá betri vinnu eins og í flugstöðinni.“
Nú var haldin pólsk hátíð í Reykjanesbæ í fyrra og er aftur núna. Hvernig lýst þér á það?
„Mér finnst það mjög flott. Ég gat ekki hjálpað í fyrra, ég var í fæðingarorlofi en ég kom samt með strákinn. Það var svo gaman að hitta alla Pólverja og tala við fólk.“
Daría segir að Pólverjar séu þokkalega ánægðir með matinn á Íslandi en vilja helst borða pólskan mat?
„Ég held að flestir borði ennþá pólskan mat. Svo var að opna pólskur veitingastaður, þar sem hægt er að fá pólskan mat. Ég held að Pólverjar sakni matarins frá Póllandi.“
Eru þeir ekki ánægðir með íslenska lambakjötið og fiskinn?
„Jú (hlær) en þeir eru ekki hrifnir af því að borða sætar kartöflur eða lifrapylsu.“
En þú?
„Ég borða ekki kjöt. Ég borða bara grænmeti og laxinn sem mér finnst mjög góður.“