Plastlaus lífsstíll er framtíðin
Nándin er áhugaverð verslun í Reykjanesbæ í eigu fjölskyldufyrirtækisins Urta Islandica
Urta Islandica er fjölskyldufyrirtæki sem rekur verslunina Nándina. Nándin er falin perla við Básveg í Keflavík en í henni má finna ýmsa matvöru, bæði beint frá býli og frá framleiðslu fjölskyldunnar. Þá leggur fjölskyldan mikla áherslu á umhverfisvæna stefnu sína en allar vörur sem má finna í búðinni eru plastlausar. „Við erum raunverulega umhverfisvænt fyrirtæki sem er með hugsjón, sem við fylgjum. Við erum að búa til valkost, við erum að búa til tækifæri - bæði atvinnulega séð og í nýsköpun. Okkar stærsta skref sem við erum rosalega stolt af er að við erum plastlaus og við erum að ryðja þann veg með því að skapa hringrásarkerfi fyrir gler. Það er eitthvað sem allir sögðu að væri ekki hægt en það er hægt,“ segir Guðbjörg Lára Sigurðardóttir, oftast kölluð Lára, en hún sér um hönnun og framleiðslu á vörum Urta Islandica.
Hugmyndaríkt og skemmtilegt umhverfi
Forsaga Urta Islandica er sú að Þóra, mamma Láru, byrjaði að þróa vörur með hráefnum úr íslenskri náttúru. „Hún byrjaði að þróa nokkrar vörur, þar á meðal aðalbláberjate. Hún prófaði að selja það í Kolaportinu og var að huga að því að fara í heilsugeirann. Það var ekki beint áhugi þar en ferðamaðurinn hins vegar greip þessar vörur. Upp úr því urðu til jurtakrydd, söltin okkar, síróp og sultur. Síðan þá hefur þetta bara stækkað og stækkað,“ segir Sigurður Magnússon, framleiðslustjóri Urta Islandica og eiginmaður Þóru.
„Það kemur eiginlega á óvart,“ segir Sigurður aðspurður hvernig það er að vera í fyrirtækjarekstri með fjölskyldumeðlimum. „Við hjónin, börnin okkar og systir konunnar erum öll starfsmenn í fyrirtækinu og það virkar furðu vel. Í byrjun var stundum erfitt að slíta í sundur „taktu til í herberginu þínu“ og „komdu að vinna“ en samstarf okkar er ótrúlega gott, enda er þetta hugmyndaríkt og skemmtilegt umhverfi sem við erum í,“ bætir Sigurður við.
Tækifæri til að gera eitthvað stærra
Vörur þeirra hafa opnað á fleiri tækifæri með tímanum en sjódavatn er ein af þeim vörum sem urðu til þess að verslunin Nándin varð til. Sjódavatn er sódavatn framleitt af Urta Islandica, það sem gerir það einstakt er að vatnið er gert úr íslenskum jarðsjó sem dælt er upp úr borholu sem nær 55 metra niður í hraunið við aðsetur þeirra í Reykjanesbæ. „Sjódavatnið er í rauninni byrjunin á matarbúðinni Nándin, vegna þess að þegar við fórum af stað með verkefnið ætluðum við að setja af stað hringrásarkerfi fyrir umbúðirnar á sjódavatninu. Þegar við fórum af stað kom í ljós að ýmsum aðilum leist ekkert á að endurnýta flöskuna, að skilakerfið væri of flókið og að þetta væri ekki gerlegt og við ættum að pakka þessu í plast. Við vildum það ekki, svo við sáum það sem tækifæri til að gera eitthvað stærra. Þetta var tækifæri til að búa til kerfi sem raunverulega myndi virka og það þýddi að við þyrftum að framleiða og koma í sölu víðri matvörulínu til þess að geta búið til þetta hringrásarkerfi,“ segir Lára og bætir við: „Við erum búin að vinna með íslenska náttúru í tólf ár og vorum alltaf að hugsa að sleppa plastinu. Við vorum með sambönd við glerbirgja og gátum því farið að hugsa þetta í víðara samhengi. Við opnum svo matarbúðina 17. júní 2020 og hringrásarkerfið er að ganga sinn hring, við erum að sjá umbúðir vera að fara sinn fimmta hring núna sem að þýðir að þetta sé hægt. Það gerir það að verkum að núna getum við farið að sjá sjódavatnið í sínu ferli vonandi í byrjun næsta árs.“
Mistök leiddu til gullverðlauna
Aðalbláberja og Chilli sósa Urta Islandica hlaut gullverðlaun í matarhandverkskeppni, „Nordic Artisan Food Awards 2022“. „Við vissum að hún væri rosalega góð en þarna fengum við staðfestingu á því,“ segir Sigurður. Í sósunni má finna bragð af spánarkerfli, aðalbláberjum og chilli og allt er þetta soðið upp úr sjó. Þá segir Sigurður vöruna upphaflega hafa átt að vera spánarkerfils síróp. „Þessi vara var þróuð árið 2011, í byrjun rekstursins var ekki til mikið af peningum og þurfti að nota lífrænan sykur í þetta sem er margfalt dýrari en hefðbundinn sykur. Þóra hafði gert síróp sem misheppnaðist og tímdi ekki að henda því. Út frá því ákvað hún að bæta út í það aðalbláberjum og chilli-inu, úr varð þessi sósa og hún er frábær á allt,“ segir Sigurður.
Plast í matvælum raunveruleg heilsuvá
Aðspurð hvernig fólk taki í plastlausa ferlið segir Lára: „Þetta er smá skref, við erum ekki með allar vörutegundir sem fólk er vant. Þá eru alls konar nýjar vörutegundir sem fólk þarf að prófa og er kannski feimið við. Ég er nokkuð viss að þeir sem séu komnir á vagninn séu ánægðir með þetta og að þeir sem eru ekki komnir á vagninn séu mjög spenntir fyrir því. Af því að plastlaus lífsstíll er framtíðin, við þurfum að finna lausnir og við leggjum til þessa lausn. Ég persónulega elska þennan lífsstíl og fólk tekur okkur almennt mjög vel og er spennt fyrir vörunum sem við erum að þróa. Við erum að notast við góð hráefni þar sem við erum að hugsa um heilsuna sérstaklega. Við sjáum líka að plastið í matvælum er orðin raunveruleg heilsuvá og þessi lausn okkar er vonandi eitthvað sem að getur aðstoðað við að ryðja veginn.“