Pétur Guðmundsson: Ekki boðlegt að vera ekki í titilbaráttu
Öllum að óvörum þá töpuðu Keflvíkingar sínum fyrsta leik í Iceland Express-deild kvenna á dögunum en sprækt lið Fjölnis náðu að fella Íslands- og bikarmeistarana. Í kvöld leika Keflvíkingar á heimavelli gegn Hamar og þar vilja meistararnir væntanlega ná í sín fyrstu stig í Toyotahöllinni. Pétur Guðmundsson, aðstoðarþjálfari liðsins segir liðið ætla að gera atlögu að titlinum en viðtal við Pétur má sjá hér að ofan.
Verður þetta leikur einn fyrir Keflvíkinga í vetur?
„Nei spánnar hafa nú oft verið á ákveðinn máta og þær hafa ekki alveg staðist. En við erum engu að síður með það gott lið að við ættum að geta verið þar sem spáin segir til um, en það verður langt frá því að vera léttur leikur,“ segir Pétur en honum líst einkar vel á þær breytingar sem hafa orðið á liði Keflvíkinga í sumar.
„Það eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi núna. Við erum með rosalega ungar stelpur sem eru að koma inn núna og þær eru að spila stórt hlutverk, og ásamt eldri leikmönnum okkar þá held ég að við eigum að geta sótt fast að þessari spá.“
Eru þessar ungu stelpur tilbúnar?
„Já þær eru það, en engu að síður þurfa þær leiki til að slípa sig saman í meistaraflokki. Það að spila í yngri flokkum og meistaraflokk er tvennt ólíkt og ef við gefum þeim tíma til að aðlagast þá hef ég engar áhyggjur af þeim.“ Pétur telur að ekki sé til sá leikmaður sem leggur eins mikið í sölurnar og Jacquline Adamschick gerði fyrir Keflvíkinga í fyrra en hann telur nýja erlenda leikmanninn, Jaleesa Butler vera góðan kost fyrir Keflavíkurstúlkur. „Þær eru ólíkir leikmenn, hún er rosalega góður leikmaður og hentar okkur vel. En það er það sama með hana og hina leikmenn okkar að þær þurfa að spila sig saman en ég tel að hún geti gert góða hluti fyrir okkur.“
Þegar það kemur að markmiðum Keflvíkinga þá er Pétur ekkert að skafa utan af því. „Bæði sem þjálfari og leikmaður þá fer ég í alla leiki til þess að sigra þá og það er engin breyting á því. Við tökum bara einn leik fyrir í einu og höfum ekki sett okkur ákveðin markmið sem lið en ég hef alltaf unni eftir þessu markmiði og ég held því áfram. Það er ekki annað boðlegt í Keflavík en að berjast um þá titla sem í boði eru, það held ég að allir þekki, en eins og ég segi þá tekur tíma að slípa liðið saman og þegar það tekst þá leggjum við atlögu að titlinum.“