Fimmtudagur 10. nóvember 2011 kl. 22:28

Parker tryggði Keflvíkingum sigur í blálokin - myndband

Keflvíkingar sigruðu Þór frá Þorlákshöfn á dramatískan hátt nú fyrir skömmu í Iceland Express deild karla í körfubolta. Lokatölur urðu 93-92 Keflvíkingum í vil þar sem Charlie Parker skoraði sigurkörfuna þegar flautan gall í lokin. Keflvíkingar leiddu allan leikinn eða þar til að Þórsarar komu með lipran lokasprett og komust yfir þegar 36 sekúndur voru eftir.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust snemma í notalega forystu, en staðan var 29-18 fyrir heimamenn í Keflavík, að loknum 1. leikhluta. Þeir Steven Gerard og Magnús Gunnarsson höfðu þá skorað samtals 5 þriggjastiga körfur án þess að klikka úr skoti.

Þórsarar gerðu áhlaup og minnkuðu muninn strax niður í byrjun 2. leikhluta og þeir enduðu fyrri hálfleikinn með flautukörfu og staðan er 48-40 þegar gengið er til búningsherbergja.

Þeir Magnús og Gerard héldu uppteknum hætti þegar seinni hálfleikur hófst og þeir settu niður þriggjastigakörfur í öllum regnbogans litum. Arnar Freyr Jónsson sem hafði rétt jafnað sig að erfiðum nárameiðslum í tæka tíð fyrir þennan leik meiddist aftur þegar skammt var eftir af 3. leikhluta og gremjan leyndi sér ekki hjá kappanum þegar hann gekk af velli til þess að hljóta aðhlynningu, hann snéri þó aftur inn í leikinn skömmu síðar.

Keflvíkingar héldu gestunum í 10 stiga mun nánst allan leikinn en undir lokinn komst Þórsliðið og var það ekki síst fyrir framlag þeirra Guðmundar Jónssonar og Darrin Govens. Þórsarar minnkuðu muninn í 1 stig þegar Guðmundur skoraði þrist þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Jarryd Cole svaraði jafnharðan fyrir Keflvíkinga og staðan 88-85. Skömmu síðar kemur svo Marko Latinovic Þór yfir í fyrsta sinn í leiknum með sniðskoti og þá eru aðeins 36 sekúndur eftir af leiknum. Á hinum endanum finna Keflvíkingar svo Magnús Gunnarsson og hann neglir niður þrist úr horninu.

Þegar Þórsarar halda svo í næstu sókn þá gera dómarar leiksins hroðaleg mistök. Þórsarar klikka úr skoti sínu og Keflvíkingar ná frákastinu, þá er leikmaður þeirra einfaldlega rifinn niður og boltinn endar utanvallar. Dómarinn hefði þarna átt að dæma augljósa ásetningsvillu á Þórsara en dæmir þeim þess í stað boltann, Keflvíkingar verða skiljanlega æfir af reiði. Úr innkastinu skorar Michael Ringgold svo og staðan er 91-92 þegar 1,36 sekúnda eru eftir á klukkunni. Þá eru komið að þætti Charlie Parker. Hann fær boltann út í horni og setur hann beint í andlitið á Þórsurum. Sigur hjá Keflavík í höfn og þakið ætlar að rifna af kofanum eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Stigin hjá Keflavík:

Magnús Þór 26 stig og 8/14 þriggja stiga körfur.
Jarryd Cole 21 stig og 8 fráköst.
Steven Gerard 19 stig og 4/6 þriggja stiga körfur.
Charlie Parker 8 stig og 7 fráköst.
Almar Stefán Guðbrandsson 6 stig.
Valur Orri Valsson 5 stig.
Arnar Freyr Jónsson 4 stig.
Sigurður Friðrik Gunarsson 2 stig.
Gunnar H. Stefánsson 2 stig.