Óskar dró fánann að húni í Reykjanesbæ
Þjóðhátíðarhöld fóru vel fram í Reykjanesbæ en þau hófust í skrúðgarðinum í Keflavík með fánahyllingu en Óskar Ívarsson, starfsmaður Umhverfismiðstöðvar dró hátíðarfánann að húni en skátar frá Heiðabúum gengu inn í skrúðgarðinn með hann auk lúðrasveitar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og aðstoðuðu við fánahyllinguna.
Guðbrandur Einarsson, forseti Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar flutti setningarræðu dagsins og ræðumaður dagsins var Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs. María Tinna Hauksdóttir, dúx frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja flutti ávarp fjallkonu og að venju söng Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn. Þá var hátíðarguðsþjónusta í Ytri-Njarðvíkurkirkju.
Hátíðarhöld héldu áfram á fjórum stöðum í bæjarfélaginu þar sem boðið var upp á leiktæki og skemmtiatriði og kaffisala var í boði Kvenfélags Keflavíkur og Ungmennafélags Njarðvíkur. Þá var kvölddagskrá fyrir unga fólkið í Fjörheimum.
Guðbrandur Einarsson, flutti setningarræðu dagsins.
María Tinna Hauksdóttir, dúx frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja flutti ávarp fjallkonu.
Ræðumaður dagsins var Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs.