Þriðjudagur 18. október 2011 kl. 12:19

Ólafur Helgi: Undir okkur komið að stíga upp

Ólafur Helgi Jónsson fyrirliði Njarðvíkinga var að vonum sáttur við sigur sinna manna í gær en þeir lönduðu öðrum sigri sínum í röð þegar þeir lögðu Hauka 107-91. „Það var frábært að spila fyrir troðfullu húsi og ég tel okkur hafa skemmt áhorfendum hér í kvöld,“ sagði Ólafur.

Hann var virkilega sáttur við Cameron Echols sem fór á kostum en ungu strákarnir voru einnig að standa sig vel í gær, bæði Ólafur sjálfur og Elvar friðriksson. „Þetta er bara það sem við þurfum að gera, við þurfum að stíga upp því annars gerist ekkert,“ en Ólafur skoraði 18 stig í gær og Elvar var með 22.

Næsti leikur hjá hinu unga liði Njarðvíkinga verður í Vesturbænum en Ólafur er fullur tilhlökkunar fyrir þann leik gegn meisturum KR. „Það verður bara gaman og ég hlakka til að takast á við það verkefni,“ sagði fyrirliði Njarðvíkinga en viðtal við kappann má sjá hér að ofan.