Miðvikudagur 4. mars 2015 kl. 08:46

Öflugt starf í gömlu sundhöllinni í Keflavík

-Frábær íþrótt fyrir ungmenni, er ekki eins og í sjónvarpinu, segir Björn Björnsson formaður



Hnefaleikafélag Reykjaness fékk á dögunum viðurkenningu frá Íþróttasambandi Íslands sem fyrirmyndarfélag. Sigríður Jónsdóttir ritari ÍSÍ afhenti Birni Björnssyni formanni HR skjal til staðfestingar á því. Sama dag var haldið unglingamót í húsnæði félagsins en það er í gömlu sundhöllinni í Keflavík.

Björn sagði að þetta væri afar jákvætt að fá þessa viðurkenningu frá ÍSÍ. Starfið væri öflugt og æfingar haldnar sex sinnum í viku, alls 70 manns, um helmingur unglingar. Aðstaðan í gömlu sundhöllinni sé til fyrirmyndar. „Þetta er frábær íþrótt fyrir ungmenni. Hún styrkir ekki bara líkamann heldur líka sjálfstraust og reynir á aga ungmenna og er því mjög góð. Að geta stjórnað sjálfum sér, skapinu og athyglinni, skiptir miklu máli og það gerir maður í hnefaleikum. Olympískir (diploma) hnefaleikar snúast miklu meira um tækni heldur en átök og er þannig mjög hættulítil íþrótt. Loturnar eru 2-3 mínútur og við erum með höfuðhlífar og hanska. Þetta er mjög ólíkt hnefaleikunum sem við sjáum í sjónvarpinu“.

Stelpur eru fjölmennar í félaginu og Björn segist afar stoltur af því en ein þeirra; Margrét Guðrún Svavarsdóttir er hnefaleikamaður Reykjanesbæjar.

Arnar Þorsteinsson og Margrét Guðrún Svavarsdóttir hlutu bæði medalíu fyrir að hafa staðist diploma í 5 skipti í unglingamótinu. Nikulás Anthony Swain og Viktoría Auður Kennethsdóttir stóðust diploma og safna nú upp í medalíu.

Aðrir keppendur frá HFR voru:
Friðrik Rúnar Friðriksson (15)
Benóný Guðjónsson (11)
Hörður Ingi Þorsteinsson (11)
Natan Rafn Garðarsson (14)
Davíð Máni Stefánsson (14)

Diplomahnefaleikar eru mildari útgáfa af hnefaleikaíþróttinni með sérstökum reglum. Diplomaviðureign er ekki dæmd eftir því hversu oft maður hittir andstæðinginn, heldur er í staðinn dæmt eftir tækni og framferði hnefaleikarans í hringnum. Keppendur fá stigagjöf eftir hversu vel þeir geta stjórnað hörku viðureignar. Dæmt er á 5 stiga skala, þar sem 3 stig samsvara hæfilegri kunnáttu og hinn fullkomni boxari fengi 5 stig. Það sem iðkendur læra er:
 
• að boxa mjúkt og tæknilega
• að sýna kunnáttu sína
• að aðlagast að andstæðingnum
 
Hver viðureign er 3 lotur og dæmdar af 3 stigadómurum og 1 hringdómara. Ef að keppanda tekst að safna 27 stigum (3 lotur x 3 dómarar x 3 stig) eða meira mun sá hinn sami hljóta viðurkenningu fyrir kunnáttu sína og útskrifast sem fullgildur hnefaleikari. Fallegir hnefaleikar eru mjúkir og snarpir en ekki þungir og luralegir.