Öðru skólaári Háaleitisskóla lokið
Öðru skólaári Háaleitisskóla að Ásbrú í Reykjanesbæ var slitið í gær. Háaleitisskóli er rekinn sem útibú frá Njarðvíkurskóla og er ætlaður yngri nemendum sem búa á Ásbrú. Í ár voru 1. til 6. bekkur við skólann og á næsta skólaári verður 7. bekk bætt við.
Við útskrift nemenda í gær voru afhentar viðurkenningar fyrir námsárangur og framfarir í námi.
Meðal annars gefa fyrirtæki að Ásbrú verðlaun og á myndinni hér að neðan má sjá Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóra KADECO, ásamt þeim nemendum sem fengu viðurkenningar frá fyrirtækinu í gær.
Við útskriftina í gær voru einnig tónlistaratriði þar sem nemendur skólans léku á píanó og harmoniku. Þá fluttu skólastjóri og deildarstjóri ávörp og þökkuðu nemendum fyrir skemmtilegan vetur í skólanum. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá og heyra tvö tónlistaratriði hjá nemendum sem eru að taka sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni.