Nýr þáttur af Suðurnesjamagasíni
Það er fjölbreyttur þáttur af Suðurnesjamagasíni á dagskrá í þessari viku. Viðfangsefnin eru fjögur að þessu sinni.
* * * * *
Eyrún Ösp Ottósdóttir úr Grindavík fékk erfitt verkefni í hendurnar á síðasta ári, stuttu eftir að hún eignaðist þriðja barn þeirra hjóna en hún er gift Óskari Péturssyni. Þessi þriðja fæðing gekk illa og upp vöknuðu grunsemdir og Eyrún fékk verstu hugsanlegu fréttir, hún var komin með krabbamein í legháls og var meinið komið á þriðja stig en alls eru stigin fjögur. Eyrún setti undir sig hausinn, fór í gegnum meðferðina og fékk svo út úr skoðun 7. desember, meðferðin hafði skilað tilætluðum árangri og eins og sakir standa er Eyrún laus við meinið.
Eyrún Ösp er í viðtali í þættinum.
* * * * *
Náttúruhamfarirnar í Grindavík hafa ekki farið fram hjá nokkrum manni síðan þær hófust 10. nóvember. Fyrst gaus 18. desember og fljótlega eftir það fluttu fyrstu Grindvíkingarnir aftur heim til sín. Þegar gaus aftur 14. janúar og hraunið náði inn í bæinn og til þriggja húsa, var ljóst að Grindvíkingar myndu ekki búa í Grindavík á næstunni. Grindvíkingum var boðið að koma inn í bæinn 29. janúar, rúmum tveimur vikum eftir eldgosið. Þau Elva Björk Guðmundsdóttir og Magnús Guðmundsson í Grindinni, voru bæði að pakka búslóðum þegar okkur bar að garði.
Við ræðum við Elvu og Magnús í þættinum
* * * * *
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti sveitarfélögin á Suðurnesjum í vikunni, þar sem hún hefur rætt við ráðamenn um þá stöðu sem nú er uppi í kjölfar heitavatnsleysis sem varð þegar hraunstraumur frá eldgosinu rauf heitavatnslögn sl. fimmtudag.
Katrín hóf morguninn á fundi í Suðurnesjabæ. Þaðan fór hún til fundar í Reykjanesbæ. Áður en haldið var í Sveitarfélagið Voga kom hún við í aðgerðastjórn almannavarna á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ. Katrín fer svo og skoðar bráðabirgðalögnina sem lögð hefur verið yfir hraunið við orkuverið í Svartsengi. Áður en hún fór til Grindavíkur fundaði hún með HS Veitum og fundar svo með HS Orku í Svartsengi.
Við ræðum við Katrínu í þættinum.
* * * * *
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands heimsótti hjúkrunarheimilin í Reykjanesbæ, hjúkrunardeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og aðgerðastjórn almannavarna á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ. Forsetafrúin, Eliza Jean Reid, var einnig með í för og yngsta dóttir þeirra hjóna, Edda Margrét.
Suðurnesjamagasín fylgdi forsetahjónunum á ferðalaginu og ræddi við Guðna.