Nýr heilsudrykkur með collagen úr þorskroði
Alda er nýr heilsudrykkur sem er væntanlegur í verslanir á næstu dögum. Drykkurinn er þróaður af Codland, sem er fullvinnslufyrirtæki í eigu grindvísku útgerðarfélaganna Vísis og Þorbjarnar.
Nýi heilsudrykkurinn inniheldur collagen en það er ein tegund próteins sem við inntöku getur bætt heilsu og hreyfigetu. Það örvar umbrot frumna í brjóski og liðum og stuðlar að endurnýjunarferli í bandvefjum en efnið styður til dæmis vefi í beinum, húð, vöðvum og sinum líkamans. Notkun collagens ýtir jafnframt undir til dæmis stinna og slétta húð.
„Það kom upp hugmynd hjá okkur í Codland að nýta það collagen sem við erum að framleiða í ferskan og náttúrulegan drykk. Við höfum verið að búa til collagen úr þorskroði og þróa það áfram og nú erum við komin með þessa framleiðslu í hendurnar, sem er þessi frábæri heilsudrykkur, Alda,“ segir Tómas Eiríksson hjá Codlandi.
Codland hefur unnið að drykknum í samstarfi við brugghúsið Steðja í Borgarfirði. Drykkurinn hefur verið til sölu á veitingastaðnum Hjá Höllu í Grindavík að undanförnu en er væntanlegur í verslanir á næstu dögum. Alda er ferskur límonaðidrykkur og blandaður með collagen. Hann er jafnframt sykurlaus og því góður heilsudrykkur. Tómas vonast því til að drykkurinn verði staðsettur hjá annarri heilsuvöru í verslunum en ekki hjá gosdrykkjum.