Föstudagur 29. mars 2019 kl. 13:40

Nýr formaður VSFK: Beint í djúpu laugina á óvissutímum

Guðbjörg er fimmti formaður VSFK á 87 árum

Guðbjörg Kristmundsdóttir tók við formennsku í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis á aðalfundi félagsins í síðustu viku. VSFK var stofnað árið 1932 og í þessi 87 ár hafa aðeins verið fjórir formenn í félaginu. Þeir Guðni Guðleifsson, Ragnar Guðleifsson, Karl Steinar Guðnason og Kristján Gunnarsson. Guðbjörg er því fimmti formaður félagsins og fyrsta konan til að gegna embættinu. 
 
Guðbjörg tekur við á miklum óvissutímum. Margir félagsmenn VSFK vinna á Keflavíkurflugvelli. Þá standa yfir viðræður um kjarasamninga þessa dagana.
 
- Hver er Guðbjörg Kristmundsdóttir?
„Ég er sveitatútta, alin upp úti á landi. Ég er Strandamaður í aðra ættina. Mamma er Akureyringur og alin upp í Garðinum, þannig að ég er með tengsl við Suðurnesin. Pabbi var hins vegar sjómaður og því var flutt reglulega og búið þar sem góð pláss fengust til sjós. Ég hef því búið víða um land og í flestum landshlutum. Ég hef síðan búið í Vogum síðustu fjórtán ár og það er met í mínu lífi því ég hafði áður búið lengst í þrjú ár á sama stað“. 
 
Guðbjörg er grunnskólakennari, auk þess að vera náms- og starfsráðgjafi og hafði starfað við það í tíu ár í Stóru-Vogaskóla. Þegar verkalýðsfélögin tóku sig saman og opnuðu Starf sá Guðbjörg auglýst starf atvinnuráðgjafa.
 
„Ég hafði starfað sem námsráðgjafi og langaði að prófa starfsráðgjafann. Ég sótti um og fékk starfið og vann sem verkefnastjóri hjá Starfi í þrjú ár hér á skrifstofu verkalýðsfélagsins. Meðan ég var að starfa við þetta þá var ég í miklum tengslum við verkalýðsfélagið og það var eitthvað sem togaði mig þangað. Þegar ég hafði verið hérna í tvö ár þá færði ég mig frá Kennarasambandinu og yfir í VSFK og ákvað að reyna að komast að í stjórn félagsins. Ég fór inn í stjórn félagsins sem ritari í eitt ár. Þegar Starf lokaði bauð Kristján Gunnarsson mér vinnu hjá VSFK og á sama tíma, árið 2015, bauð ég mig fram til varaformennsku í félaginu. Þá var eiginlega ekki aftur snúið og ég sagði við Kristján að næsta skref væri að taka við formennsku í félaginu,“ segir Guðbjörg. Hún segir starfið hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis bæði áhugavert og skemmtilegt. „Mér fannst ég eiga vel heima í þessu.“
 
Guðbjörg hefur séð miklar og margskonar breytingar á VSFK frá því hún kom fyrst til starfa á skrifstofu félagsins. Félagsmönnum hefur fjölgað mikið og þá sérstakleg af erlendu bergi. Í dag er meira en helmingur félagsmanna útlendingar og meirihluti félaga VSFK eru einnig konur. Guðbjörg segir einnig auðveldara að eiga samskipti við þessa félaga sem séu að stórum hluta menntað fólk að utan. „Og þetta fólk gerir kröfu um þjónustu og samskipti sem er frábært,“ segir Guðbjörg.
 
Guðbjörg tekur við Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis á miklum óvissutímum á Keflavíkurflugvelli og í miðjum kjarasamningum. Formaður VSFK þarf að sitja marga fundi og annar fundur Guðbjargar sem formaður var neyðarfundur vegna Keflavíkurflugvallar. Hún segist spennt að takast á við áskoranir næstu daga og vikna. „Það er bara að demba sér í djúpu laugina,“ segir hún.
 
Síðustu daga hefur Guðbjörg og hennar fólk hjá VSFK átt fundi með trúnaðarmönnum í fjölda fyrirtækja á starfssvæði verkalýðsfélagsins. „Það er fullt af verkefnum framundan. Við höfum opnað facebook-síðu fyrir félagið og þá er verið að vinna að fréttabréfi sem kemur út mánaðarlega og á dagskrá eru vinnustaðaheimsóknir og aukin samskipti við félagsmenn og fá þá til að vinna með félaginu.“