Föstudagur 13. október 2023 kl. 16:03

Nýjar lausnir í húsnæðismálum og öskurdagur í október


Nýr þáttur af Suðurnesjamagasíni er kominn á vefinn. Tvö innslög eru í þætti vikunnar sem bæði tengjast skólamálum á sinn hátt.

Reykjanesbær á eða leigir um 4.000 fermetra af færanlegum einingum sem í dag eru notaðar fyrir leik- og grunnskóla í bæjarfélaginu. Nýjasta útspil bæjarins er 1.200 fermetra skólabygging sem reis á nokkrum mánuðum á gamla malarvellinum við Hringbraut í Keflavík og er ætlað að leysa bráðan húsnæðisvanda Myllubakkaskóla og Holtaskóla. En hvað ræður því að Reykjanesbær fer þessa leið í húsnæðismálum? Við fáum að vita það í þættinum.

SKÓLASLIT 3: Öskurdagur er spennandi og hrollvekjandi lestrarupplifun fyrir áhugasama og forvitna krakka og líka alla hina sem vilja vera með. Lestrarupplifunin er í boði Reykjanesbæjar og er hugafóstur kennsluráðgjafa á Reykjanesi og Ævars Þórs Benediktssonar rithöfundar. Á hverjum virkum degi í október mun birtast einn kafli úr sögunni ásamt myndlýsingu Ara Yates. Spennan magnast eins og þau Anna Hulda Einarsdóttir og Ólafur Bergur Ólafsson segja okkur frá í Suðurnesjamagasíni.