Mánudagur 16. október 2023 kl. 21:04

Nýjar lausnir í húsnæðismálum í Reykjanesbæ

Reykjanesbær á eða leigir um 4.000 fermetra af færanlegum einingum sem í dag eru notaðar fyrir leik- og grunnskóla í bæjarfélaginu. Nýjasta útspil bæjarins er 1.200 fermetra skólabygging sem reis á nokkrum mánuðum á gamla malarvellinum við Hringbraut í Keflavík og er ætlað að leysa bráðan húsnæðisvanda Myllubakkaskóla og Holtaskóla.

Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Reykjanesbæjar, skissaði hugmynd að skólabyggingunni á blað þann 13. apríl og starfsleyfi fyrir bygginguna var gefið út þann 20. september fyrir fullbúið húsnæði.

Í samtali við Víkurfréttir segir Guðlaugur að Reykjanesbær hóf samvinnu við Trimó í Slóveníu eftir útboð árið 2016. Hugmynd bæjarins hafi þá verið að útvega einfalt, fljótlegt og gott húsnæði.