Nýir hópar erlends vinnuafls ekki á leið í íslenska fiskvinnslu
Nýfiskur færist nær hátækni í fiskvinnslu
Nýfiskur í Sandgerði er einn stærsti vinnustaðurinn í bæjarfélaginu ef undan er skilin opinber starfsemi og sú sem fer fram í og við flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er í Sandgerði eins og allir vita. Hjá Nýfiski er unninn ferskur þorskur og ýsa alla daga ársins fyrir Belgíumarkað.
Nýfiskur mun í haust taka í notkun nýja Flexicut skurðarvél frá Marel fyrir vinnsluna í Sandgerði. Með tilkomu vélarinnar verður fiskvinnsla Nýfisks komin í flokk með hátæknifiskvinnsluhúsum. Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Nýfisks, segir fyrirtækið vilja vera í fremstu röð þegar kemur að fiskvinnslu. Með frekari tæknivæðingu í fiskvinnslu er einnig verið að bregðast við því að fiskvinnslustöðvum gangi ekki eins vel í dag að ráða til sín starfsfólk eins og á árum áður.
Ný vél leysir mannshöndina af hólmi
Það er þekkt í dag að flest starfsfólk í fiskvinnslu hafi ekki íslensku sem móðurmál. Við því var brugðist með því að ráða inn starfsfólk frá Póllandi og einnig frá Tælandi og Filippseyjum. Nú mun fiskvinnslan hins vegar tæknivæðast enn frekar og nýja vélin sem Nýfiskur fær í haust tekur beingarðinn úr fiskflakinu og leysir mannshöndina af hólmi þar. Þá sker vélin flakið í bita í framhaldinu og allt er þetta framkvæmt með vatni.
„Með þessu hverfa einhæf störf úr vinnslunni hjá okkur en í staðinn koma störf sem krefjast tækniþekkingar. Við sjáum okkur knúin til að gera þetta því það er ekki langt í að það verði erfitt að fá fólk til að sinna þessum einhæfu verksmiðjustörfum. Við sjáum hvernig þróunin hefur verið síðustu 15 til 20 ár. Við sjáum að Íslendingar eru nánast horfnir úr þessum geira og við leystum það með erlendu vinnuafli. Þar er Nýfiskur engin undantekning og við erum hér með frábært starfsfólk meðal annars frá Póllandi og Tælandi.“
Þorsteinn segist ekki eiga von á að nýir hópar af erlendu vinnuafli eigi eftir að sækja í fiskvinnslu til Íslands nú eins og þegar erlent fiskvinnslufólk streymdi hingað á árum áður. „Við stefnum því með Nýfisk í þá átt að vera hátæknivinnsla og að það sé nauðsynlegt til að tryggja sér framtíðina.“
Fersk flök með flugi alla daga til Belgíu
Þorsteinn segir að sérhæfing Nýfisks liggi í Belgíumarkaði þangað sem fyrirtækið sendir fersk flök og flakabita með flugi alla daga. Fyrirtækið aflar sér hráefnis bæði frá eigin útgerð en einnig af fiskmarkaði. Nýfiskur vinnur næstum 6000 tonn af fiski á ári en útgerð fyrirtækisins á um 850 þorskígildistonn. Fyrirtækið tryggir sér hráefni frá nokkrum smærri bátum, 15 til 30 tonna bátum sem róa með línu. „Við erum með fjóra báta í viðskiptum og kaupum það sem upp á vantar af fiskmarkaði.“
Þorsteinn segir að staðsetning vinnslunnar í Sandgerði gefi fyrirtækinu forskot þegar kemur að því að flytja ferskan fisk út með flugi. Það bjóði upp á mikinn sveigjanleika að vera í Sandgerði og viðskiptavinir Nýfisks hafi tækifæri til að breyta daglegum pöntunum sínum fram eftir morgni þann dag sem fiskurinn er sendur í flug klukkan 13 á daginn.
„Okkar viðskiptavinir í Belgíu eru mjög kröfuharðir og vilja aðeins það ferskasta hráefni sem völ er á og þess vegna verðum við að nota flug til að koma fisknum út. Útflutningur á ferskum fiski með flugi er sá grunnur sem fyrirtækið hefur byggt á frá upphafi og ætlar að halda áfram á þeirri braut“.
Hráefnið kemur í hús á milli klukkan 4 og 5 að morgni og slæging hefst klukkan 6 að morgni. Vinnslan hefst svo klukkan 7 og stöðvar ekkert yfir daginn. Þannig fer starfsfólk á tvískiptum vöktum í kaffi- og matartíma. Venjulegum vinnudegi lýkur svo klukkan 15. Nýfiskur sendir frá sér fisk í flug sex daga vikunnar og er að allt árið. Það er rétt yfir jól og áramót sem starfsemin er stöðvuð.
Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Nýfisks.