Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 22. október 2022 kl. 06:28

Ný akbraut fyrir flugvélar og 22.000 fermetra austurbygging við flugstöðina

Framkvæmdir fyrir nærri 30 milljarða. Árið 2024 verður hafist handa við tengibyggingu sem mun kosta um 40 milljarða.

Viðamiklar framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu tvö árin við endurgerð á akbrautum á Keflavíkurflugvelli og við viðbyggingu til austurs en hún er stærri en flugstöðin var þegar hún var opnuð árið 1987. Heildarkostnaður þessara tveggja stóru verkefna nemur um 26 milljörðum króna. Framkvæmdum á akbrautum á að ljúka 2023 en þegar fyrsta áfanga austurbyggingar verður lokið  2024 verður hægt að ráðast í nýja tengibyggingu á milli norður- og suðurbygginga. Áætlað er að kostnaður við þá stóru framkvæmd muni nema um 40 milljörðum króna eða nærri tvöfalt meira en við þessar tvær.

Páll Svavar Pálsson, forstöðumaður flugvallarþróunar og uppbyggingar hjá Isavia, segir að til að halda Keflavíkurflugvelli samkeppnishæfum og tryggja öryggi þurfi að sjá til þess að innviðum sé viðhaldið og líftími þeirra hámarkaður því þeir séu mjög dýrir. Bæting innviðanna eykur einnig rekstraröryggi vallarins.

Akbrautarframkvæmdir geta valdið ónæði vegna flugumferðar.
Nú í sumar hóf Isavia nýframkvæmd á akbraut sem sem liggur norðri til suðurs og kallast „Mike“. Sú framkvæmd tengist við eina flugbraut og þrjár akbrautir.

„Akbrautin er fyrsta nýja akbraut fyrir flugvélar sem gerð er á Keflavíkurflugvelli í langan tíma. Akbrautin er um 1.500 metrar að lengd og 23 metrar að breidd með sjö metra axlir beggja vegna, þannig að þessi framkvæmd er töluvert umfangsmikil. Með framkvæmdinni er verið að auka bæði öryggi og flæði. Framkvæmdin mun einnig hjálpa mikið til með viðhald til framtíðar á öðrum akbrautum og einfalda rekstur,“ segir Páll Svavar.

„Þegar við erum að vinna við tengingar eða þveranir þá þurfum við óhjákvæmilega að loka akbrautum og beina flugvélum aðra leið en hefðbundið vinnulag er. Í vor og nú í haust hefur því verið meiri flugumferð og ónæði yfir Reykjanesbæ en við reynum að lágmarka þann tíma sem það tekur. Verktakarnir Ístak og Colas hafa verið mjög liprir og samvinnan góð í að skila góðu verki. Í sumum verkþáttum hefur verið unnið allan sólarhringinn og þegar veðrið hefur ekki leikið við okkur þá hafa verkþættir verið framkvæmdir um helgar eða að nóttu. Ljóst að veðrið hefur ekki leikið við okkur í sumar og stefnir því í að verkið þurfi að ljúka næsta vor,“ segir Páll Svavar. Að jafnaði eru um fimmtíu starfsmenn við verkið en fara upp í um eitthundrað á þeim dögum sem malbikun á sér stað. 

Á vef Isavia geta íbúar fylgst með hljóðstigi frá flugumferð hér og sent ábendingar um hvaða flug er að skapa ónæði hverju sinni. Leiðbeiningar um kerfið má finna hér. 

Umfangsmeiri framkvæmdir við viðhald

Eftir að Varnarliðið fór frá Íslandi árið 2006 var lítið fjármagn til viðhalds á flugbrautum í Keflavík og akbrautum og flugbrautum var ekki viðhaldið í fullri breidd. „Það hefur aðeins verið að bíta okkur núna þannig að framkvæmdir sem farið er í núna eru umfangsmeiri og taka meiri tíma. Þetta verður flóknara og erfiðara en það hefði þurft að verða. Árin 2017-2018 fórum við í endurgerð á flugbrautunum hjá okkur og það eru stífar reglur á svoleiðis framkvæmdum og uppfylla þarf alla nýja staðla.“

Nú er verið að vinna í „masterplani“ fyrir Keflavíkurflugvöll og hvernig á að byggja upp flugvöllinn. Meðal annars er núna verið að vinna í hugmyndavinnu fyrir aðrar akbrautir sem munu liggja frá austri til vesturs. Þá er einnig verið að skoða sérstakt afísingarsvæði fyrir flugvélar.

Fyrsti áfangi austurbyggingar stærri en upphaflega flugstöðin

Stjórnendur Isavia voru bjartsýnir á endurheimtur á Keflavíkurflugvelli eftir kórónuveirufaraldurinn en endurheimtur virðast ætla að ganga hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir og vöxturinn er hraðari en menn áttu von á. Til að bregðast við auknum vexti hófust framkvæmdir við austurbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar 2021. Um er að ræða flugstöðvarbyggingu sem er um 22.000 fermetrar sem er t.a.m. stærri bygging en upphafleg norðurbygging flugstöðvarinnar sem tekin var í notkun árið 1987. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 17 milljarðar króna og heildarkostnaður um 22 milljarðar. Þá fara um tveir milljarðar króna í flughlöð við bygginguna sem áætlað er að opna sumarið 2024. Ákveðnir hlutar þeirrar byggingar verða þó teknir í notkun fyrr, eins og t.a.m. aðstaða fyrir farangursflokkunarkerfi og stærri töskusalur og afkastameiri töskubönd. Þá er sá hlutu austurbyggingarinnar sem nú er í smíðum aðeins um fjórðungur þess sem byggingin verður fullbyggð.

Þegar fyrsta áfanga austurbyggingar verður lokið verður hægt að ráðast í nýja tengibyggingu á milli norður- og suðurbygginga og leysir af hólmi ranann svokallaða, sem er hluti af upphaflegu flugstöðvarbyggingunni.

Nánar er fallað um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli í Suðurnesja-magasíni vikunnar á fimmtudagskvöld kl. 19:30 á Hringbraut og vf.is.

Páll Svavar Pálsson, forstöðumaður flugvallarþróunar og uppbyggingar hjá Isavia segir að til að halda Keflavíkurflugvelli samkeppnishæfum og tryggja öryggi þurfi að sjá til þess að innviðum sé viðhaldið. Hér er hann með nýju austurbygginguna í baksýn. VF-myndir/pket.

Akbrautin er um 1500 metrar að lengd og 23 metrar að breidd með sjö metra axlir beggja vegna.