Fimmtudagur 5. nóvember 2015 kl. 20:52

Nú má fara að poppa - þáttur vikunnar er hér!

Fertugasti þáttur Sjónvarps Víkurfrétta er á dagskrá ÍNN núna í kvöld kl. 21:30. Þetta er jafnframt 100. þátturinn sem Víkurfréttir framleiða fyrir ÍNN.

Þáttur kvöldsins er fjölbreyttur. Krakkarnir í sunddeild Grindavíkur syntu áheitasund til stuðnings henni Ólavíu Margréti sem glímir við krabbamein í augum. Við tókum hús á syndandi krökkum í Grindavík.

Sigurbjörg Ólafsdóttir keyrir stóra trukka og afgreiðir flugvélar á Keflavíkurflugvelli um eldsneyti. Sjónvarp Víkurfrétta fór í vinnuna með Sigurbjörgu.

Úrslit hafa verið kynnt í samkeppni um framtíðarskipulag íbúðabyggðarinnar á Ásbrú. Við skoðum hugmyndasamkeppnina en förum einnig í Stapann sem varð 50 ára á dögunum. Þá vörum við í hrekkjavökugöngu um Innri Njarðvík og Ásbrú með börnunum þar.