Sunnudagur 11. apríl 2010 kl. 22:55

Naumur sigur Njarðvíkur kom í veg fyrir sumarfrí

Njarðvíkingar bægðu kústinum góða frá í kvöld með 86-88 útisigri á Keflavík í þriðju undanúrslitaviðureign liðanna í Iceland Express deild karla. Lokaspretturinn var æsispennandi þar sem sigurinn gat dottið báðum megin en Njarðvíkingar höfðu nauman sigur og knúðu því fram fjórða leikinn sem verður í Ljónagryfjunni á þriðjudag. Nick Bradford og Magnús Þór Gunnarsson gerðu báðir 20 stig fyrir Njarðvík í kvöld en Gunnar Einarsson gerði 21 stig í liði Keflavíkur.

Gestirnir úr Njarðvík byrjuðu vel og leiddu 0-5 eftir þriggja stiga körfu frá Nick Bradford en heimamenn í Keflavík skoruðu næstu sjö stig í röð. Skemmtileg byrjun þó óneitanlega hafi farið hrollur um Njarðvíkinga þegar Hörður Axel ,,strippaði“ Magnús Þór Gunnarsson, fann Gunnar Einarsson sem keyrði að körfunni og skoraði. Alls ekki óalgeng sjón í þessu einvígi en eftir þessa uppákomu fóru Njarðvíkingar upp á tærnar og höfðu betri gætur á boltanum.
 


Ekki leið á löngu uns menn voru farnir að kítast, Nick Bradford og Gunnar Einarsson áttu í smá orðaskaki en þó fyrir neðan suðumörk. Nokkur viðlíka atriði til viðbótar sáust í fyrri hálfleik en dómararnir Björgvin og Rögnvaldur gerðu vel að hemja menn.
 


Liðin skiptust á forystunni í fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar leiddu 22-25 að honum loknum þar sem Jóhann Árni Ólafsson setti niður stökkskot í teig Keflvíkinga þegar þrjár sekúndur voru eftir.
 


Sóknarleikur Njarðvíkinga var allt annar en í fyrstu tveimur leikjum liðanna og því var jafnt á öllum tölum. Draelon Burns er greinilega ekki búinn að ná sér að fullu eftir að hann lenti illa á öðrum fæti í leik tvö úti í Njarðvík en hann haltraði á bekkinn þegar skammt var liðið af öðrum leikhluta.
 


Guðmundur Jónsson reif Njarðvíkinga frá gestgjöfum sínum 27-34 með þriggja stiga körfu en hjá Keflavík var Urule að fara á kostum. Tvær sóknir í röð fiskaði hann villu á Friðrik Stefánsson, skoraði og fékk víti að auki en brenndi af báðum vítunum.
 


Gunnar Einarsson keyrði miskunnarlaust á Njarðvíkurvörnina í kvöld og grænir hafa enn ekki náð tökum á Gunnari í seríunni sem leikið hefur gríðarvel fyrir Keflavík undanfarið. Sverrir Þór Sverrisson jafnaði metin í 41-41 með sterkum þrist en Njarðvíkinga sigu framúr og leiddu 46-49 í hálfleik þar sem Egill Jónasson var að koma sterkur af Njarðvíkurbekknum og tróð t.d. nokkrum sinnum með tilþrifum.
 


Gunnar Einarsson var með 14 stig hjá Keflavík í hálfleik og Urule með 8 stig og 8 fráköst. Hjá Njarðvík var Nick Bradford kominn með 11 stig og Magnús Þór Gunnarsson 10.
 
Guðmundur Jónsson kom upp með boltann fyrir Njarðvík í kvöld í bland við þá Rúnar Inga og Magnús Þór. Guðmundur er nýliði í þessari stöðu en fórst verkið vel úr hendi og áttu Keflvíkingar erfiðara um vik að pressa á boltann þegar Guðmundur kom upp með hann.
 


Njarðvíkingar léku maður á mann vörn í kvöld enda sýndi það sig í Ljónagryfjunni í leik tvö að Keflvíkingar láta bara rigna þegar þeir mæta svæðisvörn. Það voru hinsvegar Njarðvíkingar sem létu rigna í þriðja leikhluta í kvöld og unnu hann 12-26 og lögðu þar með grunninn að sigri sínum.
 


Guðmundur Jónsson jók muninn í 51-75 með þrist á lokaspretti þriðja leikhluta en Keflvíkingar gerðu næstu sjö stig í röð svo liðin héldu inn í lokasprettinn í stöðunni 58-75 Njarðvík í vil.
 


Eins og oft vill bregða við þá fóru Njarðvíkingar að verja forskotið sitt á meðan Keflvíkingar börðust af lífi og sál. Hægt og bítandi færðust heimamenn nær. Páll Kristinsson fékk snemma sína fimmtu villu í liði Njarðvíkur og hélt á bekkinn en bæði lið voru hér kominn í töluverð villuvandræði og eftir rúmlega fimm mínútna leik voru bæði lið komin með skotrétt svo vitað var að lokaspretturinn myndi teygjast á langinn.
 


Gunnar Einarsson minnkaði muninn í 9 stig með erfiðu þriggja stiga skoti og staðan 70-79 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Njarðvíkingar héldu forystunni og allt var í lás síðustu mínúturnar uns Guðmundur Jónsson kom Njarðvíkingum í 83-88 með tveimur vítaskotum. Keflvíkingar minnkuðu muninn í 88-85 og tóku svo leikhlé þegar 13 sekúndur voru eftir þegar dæmt var skref á Hjört Einarsson í liði Njarðvíkinga.
 


Keflvíkingar settu upp í síðustu sókn sem lauk með mjög erfiðu en líklegu þriggja stiga skoti Gunnars Einarssonar. Boltinn dansaði í innanverðum hringnum en vildi ekki ofan í. Hörður Axel tók frákastið og Njarðvíkingar brutu strax á honum. Hörður hitti úr fyrra vítinu en klikkaði úr því síðara, í frákastinu barst boltinn til Gunnars Stefánssonar sem lét vaða og hitti en leiktíminn var úti og lokatölur því 86-88 Njarðvíkingum í vil.
 


Nick Bradford og Magnús Þór Gunnarsson voru báðir með 20 stig í liði Njarðvíkinga en Guðmundur Jónsson var vítamínssprauta þeirra grænu í kvöld með 17 stig og 8 fráköst í hlutverki leikstjórnanda. Þá var Friðrik Erlendur Stefánsson að taka nettan ,,Pavel“ á þetta er hann daðraði við þrennuna með 8 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.
 


Hjá Keflvíkingum var Gunnar Einarsson aftur stigahæstur og nú með 21 stig en þar ekki langt undan var Hörður Axel Vilhjálmsson með 20 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Urule sem fór mikinn í fyrri hálfleik hafði hægt um sig í þeim síðari gegn sterkri Njarðvíkurvörn og bætti bara á sig einu frákasti og lauk því leik með 8 stig og 9 fráköst. Draelon Burns gerði 10 stig í leiknum en ljóst var að hann var einungis á hálfum hraða þar sem ökklameiðslin frá leik tvö eru enn að plaga hann.



Texti: Jón Björn Ólafsson / www.karfan.is

Ljósmyndir: Sölvi Logason

Video: Hilmar Bragi Bárðarson