Fimmtudagur 1. mars 2012 kl. 15:48

Mun meiri veiði nú en fyrir nokkrum árum


„Litlu bátarnir eru búnir að vera með upp í 17,5 tonn í róðri en það gæti verið að minnka núna þegar að loðnan fer að ganga yfir,“ segir Guðjón Bragason hafnarvörður við Sandgerðishöfn í samtali við blaðið og segir að loðnan hafi yfirleitt áhrif á veiðina á meðan hún gangi yfir. Nú sé ekki búið að reyna mikið á það þar sem það hefur verið bræla síðan. Aðeins var einn bátur á sjó í gær en það var Örn KE.

Guðjón sagði að það væri mikið líf yfir þessu þegar vel viðraði en undanfarna daga væri veðrið ekki búið að vera sem best. „Það er mikið landað og mikið fiskerí hjá línubátunum. Undanfarin 4-5 ár hefur þetta verið mikil veiði hjá línubátunum, já, og bara á öll veiðarfæri. Það er mun meiri veiði í gangi en fyrir nokkrum árum síðan.“ Hann sagði bátana frá Nesfiski alla vera stopp um þessar mundir en þeir róa eftir frystihúsinu eins og sagt er, það sé bara það mikið fiskerí. Annar togarinn frá Nesfiski er í landi núna en hinn fór út á mánudaginn en þeir eru yfirleitt með fullfermi eftir vikuna, bæði Berglín GK og Sóley Sigurjóns GK.
Á vef Víkurfrétta er skemmtilegt myndband sem tekið var á línuveiðum við Sandgerði um sl. helgi um borð í Muggi KE.