Föstudagur 27. maí 2022 kl. 18:19

Mótorhjólakappar á leið í Umhyggjuferð

Vélhjólaklúbburinn Sleipnir MC Keflavík mun í sumar fara  í hringferð um landið á vélhjólum til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna. Haldið verður af stað þann 11. ágúst frá Reykjanesbæ og stendur ferðin yfir í fjóra daga. Alls eru sautján mótorhjólakappar að fara hringinn en þeir hvetja aðra hjólara til að slást með í för.

Þeir Örvar Snær Birkisson og Ísak Þór Ragnarsson, Sleipnismenn, segja hugmyndina að ferðinni hafa kviknað síðasta sumar en þeim langaði að láta gott af sér leiða. Þeir hvetja fólk til þess að kynna sér starfsemi Umhyggju en allur ágóði ferðarinnar rennur til félagsins. „Það geta allir farið inn á umhyggja.is og kynnt sér þeirra starfsemi og styrkt þau beint þar, svo erum við líka með styrktar reikning frá þeim. Þannig að öll þau áheit og allur sá peningur sem við söfnum fer beint inn á þann reikning,“ segir Örvar.

Þá segja þeir stuðning og áhuga fólks á Umhyggjuferðinni vera mikinn. „Við erum komin með fullt af flottu fólki og fyrirtækjum sem eru nú þegar byrjuð að sýna áhuga og stuðning,“ segir Ísak. „Þetta er eiginlega strax komið langt fram úr okkar væntingum og við erum varla byrjaðir,“ bætir hann við.

Sýnt verður frá ferðinni á samfélagsmiðlum Sleipnis MC í Keflavík en stefnt er að því að brjóta upp langa hjóladaga með skemmtun.

„Í þessari ferð verður ýmislegt gert. Við verðum með alls konar afþreyingu sem við ætlum að gera í leiðinni. Við erum til dæmis búnir að skora á handboltalið KA í brennó á Akureyri. Við ætlum að reyna að gera smá skemmtun úr þessu fyrir áhorfendur í leiðinni,“ segir Ísak.

„Við erum allir með þetta sama áhugamál og vinir og erum með þessa frábæru aðstöðu,“ segir Ísak, aðspurður hvernig félagsskapurinn í vélhjólaklúbbnum er. „Þetta er náttúrulega bara ein stór fjölskylda og þvílíkt bræðralag. Við stöndum allir með hvor öðrum og hjálpumst að. Þetta er bara rosalega stór fjölskylda,“ segir Örvar.