Milljónaviðskipti í stuttu stoppi
– einstök ofurþota hafði viðkomu á Keflavíkurflugvelli
Hin risavaxna Mriya, stærsta þotan sem flýgur um loftin blá, hafði viðkomu á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöldi. Hér hafði vélin tæplega tveggja tíma viðkomu á leið sinni vestur um haf.
Mriya er af gerðinni Antonov AN 225, sex hreyfla og hámarks flugtaksþyngd getur verið 640 tonn. Vélin er 84 metra löng og með vænghaf upp á 88,4 metra. Hæð vélarinnar er 18,1 metri. Flatarmál vængja er samtals 905 fermetrar.
Vélin kom til Keflavíkurflugvallar í gærkvöldi til að taka eldsneyti en tankar vélarinnar taka samtals 300.000 kg. af eldsneyti. Það voru því milljóna viðskipti sem áttu sér stað á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi þegar fyllt var á tanka vélarinnar sem kom hingað frá Doncaster í Englandi. Héðan fór vélin til Goose Bay í Kanada og síðan áfram til Toronto.
Meðfylgjandi myndskeið var tekið upp með innrauðri myndatöku og því er myndskeiðið ekki í lit.