Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 15. júlí 2019 kl. 22:30

Mikill eldur í ruslageymslu við Hljómahöll - myndskeið

Mikill eldur logaði í ruslageymslu við Hljómahöll nú í kvöld. Lögregla og Njarðvíkingurinn Jóhannes Albert Kristbjörnsson slökktu mesta eldinn áður en slökkvilið Brunavarna Suðurnesja slökkti svo í síðustu glæðunum.

Tilkynnt var um eldinn á tíunda tímanum í kvöld og þá logaði glatt í ruslageymslunni og mikill eldsmatur á staðnum.

Íbúar í nágrenninu tilkynntu um eldinn en nokkur sprenging varð í geymslunni þegar eldurinn blossaði upp. Á vettvangi mátti heyra að íbúar höfðu fundið brunalykt í smá stund áður en þeir áttuðu sig á hvað var að gerast. Fyrst var haldið að brunalyktin væri vegna arinkubba.

Eins og sjá má á myndum frá vettvangi þá var útveggur Hljómahallar farinn að sviðna og litlu hefði mátt muna að eldurinn læsti sig í vegginn. Fyrir innan vegginn eru salerni og geymslur.

VF-myndir: Hilmar Bragi