Mikil vinna liggur að baki hverjum kransi
- Jólakransar Lionessa skila milljónum króna til líknarmála í Reykjanesbæ
„Við erum hérna að hnýta kransana sem við ætlum að selja bæjarbúum. Þetta er árleg fjáröflun hjá okkur Lionessum sem við höfum haft í 20 ár,“ segir Eydís B. Eyjólfsdóttir Lionessa í samtali við blaðamann Víkurfrétta.
Hópur Lionessa var saman kominn í húsnæði Rauða Krossins í Reykjanesbæ til að leggja lokahönd á þessa stóru, árlegu fjáröflun. Konurnar í Lionessuklúbbi Keflavíkur fara árlega fyrir jólin í fyrirtæki og til einstaklinga og selja veglega jólakransa sem eru hnýttir með sælgætismolum.
Gunnþórunn Gunnarsdóttir segir að í gegnum árin hafi klúbburinn gert kransa úr ýmis konar sælgæti. Undanfarin ár hafa þær verið að nota erlent sælgæti í kransana en í ár eru jólakransarnir gerðir úr íslensku sælgæti að viðbættum nokkrum úrvals erlendum molum. Í ár eru það Freyju konfektmolar sem prýða kransana ásamt fallegum slaufum.
„Það er gaman að starfa að þessu og fólk tekur okkur svo vel,“ segir Eydís og bætir við að allur ágóði af jólakransasölunni renni til líknarmála. Þar hefur Lionessuklúbbur Keflavíkur látið til sín taka og bara á síðasta ári voru veittir styrkir upp á 2,3 milljónir króna til ýmissa líknarmála, eins og sjá má í grein frá Lionessum í blaði dagsins. „Núna treystum við á sömu góðu móttökurnar og hlökkum til að hitta fólk í bænum og bjóða því þetta sem við erum að gera.“
Lionessuklúbbur Keflavíkur leggur mikla vinnu í þessa fjáröflun, sem tekur um einn og hálfan mánuð frá upphafi til enda. „Við keppumst við allar sem ein að gera þetta sem best,“ segir Gunnþórunn.
Mikil vinna liggur að baki hverjum kransi. Þannig þarf að búa til hringina, hnýta slaufur og hnýta allt konfektið á en fjölmargir molar eru á hverjum kransi. Kransarnir skipta einnig hundruðum sem þær Lionessur framleiða en árlega selja þær um 400 kransa til bæjarbúa og á fleiri staði. Þannig fara árlega nokkrir kransar í langt ferðalag út í heim til Íslendinga erlendis, sem finnst ómissandi að fá jólakrans með sælgæti. „Við erum með marga fasta viðskiptavini sem hafa verið með frá upphafi og alltaf eru að bætast nýir við,“ segir Gunnþórunn og bætir við: „Þetta er líka tilvalið til jólagjafa fyrir þá sem eiga allt.“
Lionessuklúbbur Keflavíkur er eini Lionessuklúbbur landsins. Klúbburinn er hluti af Lions-hreyfingunni og Lionsklúbbur Keflavíkur er föðurklúbbur Lionessuklúbbsins. Lionessurnar kjósa að starfa áfram með óbreyttu formi en kosið er um það árlega hvort ganga eigi inn í Linosklúbb. „Við erum stoltar af því að vera Lionessur og ætlum að vera það áfram,“ segir Eydís.
Starf Lionessa gengur mest út á fjáraflanir og að láta gott af sér leiða - gera eitthvað gott fyrir bæjarfélagið. „Við veitum hvor annarri mikla ánægju með því að vera í þessum klúbbi. Við erum allar miklar vinkonur,“ segir Eydís. Gunnþórunn bætir því við að í dag séu félagskonur 50 talsins. Þær hafi flestar orðið 54 og eru á öllum aldri. Sú yngsta er fertug og elsta 85 ára. Lionessur funda einu sinni í mánuði á Hótel Keflavík. Þær Eydís og Gunnþórunn segja að allar konur séu velkomnar í klúbbinn. Þær sem hafa áhuga á að ganga í Lionessuklúbbinn hafi bara samband og fái að koma á fund til að kynna sér starfið og geti orðið félagar eftir tvo til þrjá fundi.
Fyrir ykkur sem viljið fá sælgætiskrans frá Lionessum í Keflavík þá fylgja hér þrjú símanúmer sem má hringa í til að panta krans. Gunnþórunn 895-1229, Eydís 863-0158 og Jóhanna 844-7057.