Miðvikudagur 22. september 2010 kl. 16:20

Merkilegur fundur, segir Árni


Umræðan um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar varð tilefni til snarpra orðaskipta á bæjarstjórnarfundi í gær þar sem tekist var á um það hvort, hvænær og hvernig niðurskurðarhugmyndir upp á 450 milljónir króna hafi verið ræddar í bæjarráði.
Eftir langt orðaskak og 15 mínútna fundarhlé var lögð fram sáttayfirlýsing frá þeim bæjarfulltrúum sem sæti eiga í bæjarráði.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, tók til máls á fundinum og taldi misskilning hafa ráðið því hvernig mál hefðu þróast. Hann áréttaði að engar tillögur hefðu verið lagðar fram heldur væri verið að vinna að þeim í nefndum og ráðum.

Í samtali við VF sagði Árni fundinn um margt merkilegan en aðilar hafi lagt sig fram um að leysa málin án þess að vera með upphrópanir í fjölmiðlum.