Mánudagur 5. september 2011 kl. 15:19

Með blik í auga - hátíðartónleikar Ljósanætur toppuðu helgina

Hátíðartónleikar Ljósanætur 2011, „Með blik í auga“ voru punkturinn yfir i-ið á Ljósanóttinni að þessu sinni en tvennir tónleikar voru í Andrews bíóhúsinu á Ásbrú í gær. Húsið var nærri fullt á báðum tónleikum og gestir voru í skýjunum og sögðust margir hafa fengið gæsahúð yfir flutningnum og minningunum sem rifjuðust upp í tímaferðalaginu.

Þetta var tímaferðalag aftur til áranna 1950 til 1970 í tónum, máli og myndum. Kristján Jóhannsson og Arnór Vilbergsson eru höfundar verksins. Kristján setti saman texta sem hann flutti fyrir hvert einast lag. Arnór útsetti tónlistina í upprunalegum anda. Það var greinilegt að þeir höfðu lagt mikinn metnað í sýninguna. Músíkin frábær og textaflutningur Kristjáns til fyrirmyndar og skemmtilegur þar sem hann blandaði saman fróðleik og húmor.



Við förum í tímaflakk aftur til áranna þegar Hafnargatan í Keflavík var ómalbikuð og breyttist í stórfljót í rigningum. Þegar kaupmenn versluðu á öllum hornum og Kaupfélagið var stórveldi. Bærinn ilmaði fyrst og fremst af fiski og herinn nýbúinn að koma sér fyrir á Háaleitinu. Hallbjörg Bjarnadóttir, Ellý Vilhjálms, Haukur Morthens og Raggi Bjarna hljómuðu í óskalagaþáttum sjúklinga og sjómanna. Við heyrum líka gamalkunna rödd útvarpsþuls flytja fréttir frá því í gamla daga á Gufunni.



Þátttakendur í verkinu voru allir frá Suðurnesjum og þeir fluttu tónlist þessara listamanna auk Hljóma, Villa Vill, Flowers og Trúbrots. Söngkonurnar, þær Fríða Dís Guðmundsdóttir, Bríet Sunna Valdemarsdóttir, Birna Rúnarsdóttir og Jana María Guðmundsdóttir voru klæddar í kjóla og fínerí sem voru frá þessum tíma og voru greiddar eins og hárgreiðslan var þá en þær sungu ásamt Valdimar Guðmundssyni, föður hans Guðmundi Hermannssyni, Arnari Dór Hannessyni, Sveini Sveinssyni, Guðmundi Sigurðssyni og Hauki Hermannssyni. 14 manna stórhljómsveit Arnórs Vilbergssonar sá um tónlistina. Alveg hreint yndislega skemmtilegt.



Í lokin sagði Kristján að stefnan væri að mæta aftur til leiks á næsta ári. Nægur efniviður er til, kannski halda þeir félagar áfram í tímavélinni.



Ákveðið hefur verið að efna til aukatónleika á föstudagskvöldið 9. sept. Þá ættu þeir sem misstu af þessum frábæru tónleikum að grípa gæsina og mæta. Miðasala er á midi.is. Þetta er frábær skemmtun og unun fyrir Suðurnesjamenn að sjá sitt fólk í öllum hlutverkum. Það er með ólíkindum hvað það er mikið af hæfileikafólki í tónlist og söng í bítlabænum. Bítlabærinn stendur enn undir nafni!



Í meðfylgjandi videobroti sjáum við hópinn syngja lokalagið saman. Hér má sjá fleiri ljósmyndir frá kvöldinu.



Texti og myndir: Páll Ketilsson.

Kristján Jóhannsson, textahöfundur á sviðinu.

Söngvararnir voru klappir upp í lokin og þá tóku þeir saman lagið sem Rúnar Júll gerði frægt; „Það þarf fólk eins og þig“.

Bríet Sunna fór á kostum eins og allir í sýningunni.