Föstudagur 18. febrúar 2011 kl. 13:44

Með 1700 tonn af loðnu til Helguvíkur

Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1700 tonn af loðnu til Helguvíkur um miðjan dag í gær. Farmurinn fór allur í bræðslu. Loðnan sem veiðist þessa dagana er mjög góð og hefur verið fryst á bæði Japans- og Rússlands-markaði. Hins vegar er mikið til af birgðum frá því í fyrra, þar sem talsvert var fryst úr Barentshafinu á síðustu vertíð og markaðir mettir.

Mjög gott verð er hins vegar að fást fyrir mjöl og lýsi úr loðnuafurðum en þessi vara er mikið notuð í fiska- og húsdýrafóður.


Hrognataka er ekki hafin en gert er ráð fyrir að hún hefjist á þriðjudaginn. Þá hefur loðnukvótinn verið aukinn og falla 64.400 tonn í hlut íslenskra skipa.


Meðfylgjandi myndskeið var tekið í Helguvíkurhöfn í gærdag þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom að landi með tonnin 1700.



Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson