Matti Óla: Hver einasti dagur var gríðarlegt átak
- Missti konu, foreldra og son á fjórum árum - Tapaði aleigunni í bankahruninu
Matti Óla á ekki bara erfiða lífsreynslu að baki á sjónum því hann tapaði öllu sem hann átti í bankahruninu, missti marga ástvini og var síðan mjög heppinn að halda lífi þegar hann velti stórum olíuflutningabíl með 40 þúsund lítra af bensíni í Ísafjarðardjúpi.
Fyrrverandi sjómaður og núverandi trukkabílstjóri? Þú vinnur við að koma olíu á milli landshluta?
„Já, ég þurfti að gera eitthvað, gat ekki bara hangið og veslast upp. Ég ákvað að fara og taka meiraprófið. Svo bara stökk ég út í djúpu laugina og lét reyna á hvort það væri ekki hægt að nota mig eitthvað í því. Ég kemst inn hjá Esso á Keflavíkurflugvelli, í Knútsstöð, sem þá var. Ég er búinn að vera í olíunni síðan, frá árinu 1997. Fljótlega eftir að Esso er lagt niður og N1 tekur þetta yfir, þá flyt ég mig til, fer til Skeljungs í Reykjavík, og fer að flytja eldsneyti um allt land og er búinn að vera í því síðan. Finnst það frábært, ég þekki fólk um allt land og er alltaf hittandi nýja karaktera.“
En það var ekki alveg eins skemmtilegt hjá þér í bankahruninu?
„Já, ég fékk þá flugu í höfuðið að verða sjálfstæður í þessum bransa. Var samt með annan fótinn í olíunni, þeir segja að ef þú byrjar í olíunni þá ertu bara þar. Þú hættir ekkert í því, þetta er svo þægileg vinna. En ég kaupi mér minn eigin bíl og vagn og fer að harka í þessu öllu saman. Þetta er 2007. Ég varð að taka þátt í þessu.“
Taka þátt í góðærinu?
„Já já, maður var að tapa einhverju. Það vöknuðu allir hvern morgun og fannst þeir vera að tapa á einhverju því það voru allir að græða alls staðar. Og ég ákvað að taka þátt í þessu og legg til pening í lítið fyrirtæki, tek erlent lán til að fjármagna þetta. Það gengur alveg gríðarlega vel en botnlaus vinna. Ég var að keyra sem verktaki fyrir hina og þessa og að vinna fyrir Skeljung líka. Svo vaknaði maður bara einn daginn og veröldin var hrunin. Maður átti útistandandi fullt af peningum. Þeir voru bara frosnir og maður náði ekkert í þessa peninga. Það segir sig auðvitað sjálft að ég þurfti að standa við mínar skuldbindingar og reyndi það eftir fremsta megni. Ég lagði bílnum, fór að vinna sem launþegi hjá Skeljungi áfram, lagði alla mína peninga, hverja einustu krónu, í fyrirtækið til að reyna að halda þessu gangandi. Það gekk bara ákveðið lengi. Svo hrundi veröldin. Þetta var bara búið og ekkert elsku mamma hjá bankanum. Það er engin gæska í gangi þar. Þeir líta ekkert á þetta sem einhverja keðjuverkun, þú þarft bara að standa í skilum. Það var gengið á mann og þetta endaði þannig að fyrirtækið var gert upp og ég tapaði því. Tapaði fullt af peningum og tapaði húsinu. Þetta var auðvitað gríðarlega erfitt og hjónabandið þoldi þetta ekki. Við skiljum og það erfiðasta í þessu öllu saman er að í kjölfarið á þessu veikist konan, fyrrverandi konan mín. Hún fær krabbamein. Það líður ekki nema rúmt ár þar til hún deyr. Þetta var svo ótrúlegt að þetta náði ekki nokkurri átt. Fram að því að konan mín dó hafði ég samið við bankann um að halda áfram að greiða af fyrirtækinu. Ég var í persónulegri ábyrgð fyrir ákveðinni skuld hjá fyrirtækinu, sem voru auðvitað mistök. Þegar konan mín dó gekk ég inn í bankann til bankastjórans og ég sagði við hann: „Ég er hættur að borga þér. Ég ætla aldrei að borga þér eina einustu krónu héðan í frá. Þú ræður hvernig þú tekur á þessu máli en héðan í frá borga ég þér ekki eina einustu krónu.“ Síðan gekk ég út og hef ekki greitt þeim eina einustu krónu síðan. Þeir viðhalda þessari skuld og það er bara þeirra.“
Og er hún þarna í bankanum ennþá?
„Já já, það er enginn gæska þar sko. Ég hefði getað farið og lýst mig gjaldþrota. Ég tók ákvörðun að gera það ekki, ég bara á ekkert. Ég hef aldrei lifað betra lífi, samt á ég ekki neitt. Þrátt fyrir allt, öll þessi áföll hef ég verið alveg gríðarlega heppinn. Ég lifi ofboðslega góðu lífi og er sáttur við lífið og tilveruna þrátt fyrir allt. Konan mín dó árið 2012. Svo deyja foreldrar mínir 2013 og 2014 og svo árið 2015 deyr sonur minn. Þá var þetta orðið mjög mikið, ofboðslega erfitt.·
Hvernig var að vinna sig úr því?
„Þetta voru gríðarleg áföll. En lífið heldur bara áfram, það er bara þannig. En þetta var bara þannig að hver einasti dagur var gríðarlegt átak. Alveg bara skelfilegt. Bara að vakna og komast í gegnum daginn var alveg gríðarlega erfitt. Fljótlega eftir að sonur minn deyr var það afrek að komast í gegnum daginn. Ég þurfti að gera eitthvað, ég gat þetta ekki. Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að ég gat svolítið stjórnað hugsunum mínum með önduninni. Þetta voru gríðarlega erfiðar hugsanir og þegar þær hellast yfir mann verður þetta svo yfirþyrmandi. Ég fann það út að með önduninni náði ég að brjóta upp hugsanir mínar. Bara með því að draga djúpt andann, halda honum niðri í mér og slaka vel á, þá náði ég að brjóta mig út úr þessum hugsanagangi sem var í gangi í höfðinu á mér. Þannig náði ég að komast í gegnum þetta. Með því að nota þetta leið alltaf lengri og lengri tími milli þess sem þetta helltist yfir mig. Smátt og smátt náði ég tökum á þessu og ég áttaði mig á því um hvað lífið snýst. Þetta snýst ekki um þetta góðæri og þessa botnlausu efnishyggju. Hún skiptir engu máli. Bara engu. Heldur bara njóta hvers dags. Með fólkinu sínu. Með börnunum sínum, barnabörnunum og barnabarnabörnunum. Í dag hef ég það alveg gríðarlega gott og líður feiknarlega vel.“