Matarmenn í Suðurnesjamagasíni
- ásamt þemadögum í Fjölbraut, safnahelgi og menningarverðlaunum
Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is í kvöld kl. 20:30. Þáttur vikunnar er áhugaverður. Í fyrri hluta þáttarins kynnumst við Matarmönnum en í síðari hlutanum förum við í Fjölbraut, Voga og Grindavík.
Matarmenn eru tveir ungir menn sem hafa mikla ástríðu fyrir mat. Þeir deila ævintýrum sínum úr eldhúsinu með þeim sem áhuga hafa á Instagram og hafa vægast sagt gaman að því. Þeir Anton Levchenko og Bjarki Þór Valdimarsson eru miklir matarmenn, flugþjónar, nágrannar en umfram allt góðir vinir. Við kíkjum í eldhúsið til þeirra í þætti vikunnar.
Þemadagar FS fóru fram í síðustu viku en yfirskrift þeirra var „til allra átta“. Þemadagarnir voru með svipuðu sniði og undanfarin ár og áhersla lögð á að fólk gæti tekið þátt og skoðað sem flest.
Um tíuþúsund manns lögðu leið sína á Safnahelgi á Suðurnesjum þetta árið en aldrei áður hafa eins margir sótt Suðurnesin heim í tengslum við þessa hátíð sem haldin var í ellefta sinn. Met voru slegin á nánast öllum söfnum sem tóku þátt og ljóst að Suðurnesjamenn og nærsveitunga þyrstir í menningu. Auk safnahelgar þá var Menningarviku Grindavíkurbæjar ýtt úr vör þessa helgi.
Grindvíkingurinn Halla María Svansdóttir fékk Menningarverðlaun Grindavíkur nú í ár fyrir framlag sitt til bæjarins. Hún var sæmd verðlaununum við opnun Menningarviku Grindavíkur. Veitingastaður hennar, Hjá Höllu, hefur notið gríðarlegra vinsælda í Grindavík og hefur hún síðustu ár haft jákvæð áhrif á matarhefð í Grindavík.