Markið hjá Arnóri eftirminnilegast
Við áramót - Margrét Sanders
Eftirminnilegast er þegar Arnór Ingvi Traustason sló eftirminnilega í gegn á EM í knattspyrnu í sumar með sigurmarki sínu á móti Austurríki. Við eigum vonandi eftir að sjá mikið af þessum frábæra knattspyrnumanni, Njarðvíkingi/Keflvíkingi, í framtíðinni, segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og einn af eigendum Strategíu og ráðgjafi.
Árangur Stopphópsins. Þessi hópur var stofnaður á Facebook þar sem núna eru um 16 þúsund meðlimir og svo verkefnastjórn í kjölfarið. Ég var hluti af verkefnastjórninni og það var ánægjulegt að þegar við Suðurnesjamenn stöndum saman þá náum við árangri, þvert á pólitík og þvert á bæjarfélög. Það var mikilvægt fyrir okkur að baráttan yrði málefnaleg og raunsæ. Við settum kröfur okkar upp í tvo raunhafa fasa, skammtímafasa og langtímafasa. Tvöföldun Reykjanesbrautar er komin á dagskrá og fer fljótlega í hönnunarfasa sem tekur tíma þó að allir vilji setja þetta í forgang. Strax hefur verið hafist handa við lausnir á veginum fyrir ofan Reykjanesbæ, við þrjú hættuleg gatnamót. Þá má nefna góðan árangur sundfólksins okkar í Reykjanesbæ og að bæði kvenna- og karlalið Grindvíkur komust upp í efstu deild í knattspyrnu.
Hver finnst þér hafa verið mest áberandi Suðurnesjamaðurinn á árinu 2016?
Ekki er annað hægt en að nefna Arnór Ingva Traustason aftur. Ráðherrann okkar á Suðurnesjum, Keflvíkingurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir, var auðvitað áberandi og hefði ég viljað sjá hana áfram. Einnig Garðbúinn Oddný Harðardóttir sem formaður Samfylkingarinnar en hún tók við erfiðu búi á árinu en axlaði ábyrgð með því að segja af sér eftir kosningar þar sem úrslitin voru auðvitað vonbrigði fyrir Samfylkinguna. Alltaf gott þegar Suðurnesjamenn eru í áhrifastöðum. Einnig er alltaf gaman að heyra af tónlistarfólkinu okkar frá Suðurnesjum sem eru ótrúlega margir og öflugir en ég nefni þó Of Monsters and Men, Valdimar og bræðurna Sigurð Guðmundsson í Hjálmum og Guðmund Óskar Guðmundsson í Hjaltalín.
Hver fannst þér vera stærstu málin á Suðurnesjum 2016?
United Silicon er án efa eitt af stóru málum ársins. Uppbygging atvinnu í Helguvík er ánægjuleg og nauðsynlegt fyrir öll sveitarfélög að byggja upp fjölbreytta atvinnustarfsemi. Það eru því mikil vonbrigði hvernig United Silicon hefur haldið á málum. Margir voru með miklar væntingar varðandi vel launaða vinnu, atvinnurekendur sem bæru samfélaga ábyrgð. Þeir hafa ekki staðið sig vel í upplýsingagjöf til bæjarbúa. Það vantar ákveðna virðingu, virðingu fyrir umhverfinu, virðingu fyrir bæjarbúum, virðingu fyrir samfélaginu. Mikið af gagnrýninni sem hefur komið fram er ofsafengin og sett fram meira af tilfinningum en rökum. Persónulega finnst mér algerlega við United Silicon að sakast. Þeir hafa haldið illa á sínum málum á allan hátt.
Ferðaþjónustan og gríðarleg aukning ferðamanna til landsins, hefur mikil áhrif á atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum enda er atvinnuleysi mjög lágt hér. Gaman er að sjá hvernig atvinnulífið er farið að sjá tækifærin á Suðurnesjum tengd ferðaþjónustu enda liggja hér mikil tækifæri.
Banaslysin á Reykjanesbraut. Fyrrnefndi Stopphópur stofnaður í kjölfar eins þeirra. Vonandi hafa batnandi samgöngur áhrif til bóta.
Hvernig sérðu Suðurnesin á nýju ári?
Suðurnesin eru landssvæði tækifæranna. Innviðirnir eru góðir, atvinnutækifæri mörg en við Suðurnesjamenn verðum sjálfir að hafa trú á svæðinu okkar og vinna meira saman. Framtíðin er björt fyrir Suðurnesin ef rétt er haldið á spilunum.