„Ég sit hér í grasinu“ - Smáskífa eftir Marínu Ósk er komin út
Tónlistarkonan Marína Ósk tekur þessa dagana sín fyrstu skref á íslenskri tónlistarsenu sem laga- og textahöfundur og sendir nú frá sér nýtt lag af væntanlegri breiðskífu. Lagið ber heitið „Ég sit hér í grasinu“ og er eftir Marínu sjálfa. Tónlist Marínu Óskar tillir sér mitt á milli ljóðræns söngvaskáldastíls og hlýlegs og melódísks jazztónlistarstíls og fá viðkvæm smáatriði og lifandi túlkun verðskuldað sæti við borðið.
Marína Ósk, sem búsett er í Stokkhólmi á meðan jazz-mastersnámi stendur, samdi lagið „Ég sit hér í grasinu“ haustið 2018 fyrir lagasmíðatíma í Konunglega Tónlistaháskólanum í Stokkhólmi - þá fyrst á ensku. Lagið íslenskaði hún svo og sótti þá vænan innblástur í íslenska náttúru.
„Ég sit hér í grasinu“ lýsir augnabliki í íslenska miðnæturlogninu yfir hásumar þar sem birtuskilyrði eru á við bestu ljósmyndalýsingu og kyrrðin er næstum snertanleg. Í textanum, sem ilmar af léttleika og laumuglettni, vísar Marína í hversu áhrifaríkt það getur verið að stoppa í augnablik og eiga hljóðlaus samskipti við þögnina - því hana getur verið ansi flókið að finna.
„Eitt af því sem mér finnst svo magnað við íslenska náttúru á sumrin er þessi næturkyrrð, þessi þögn sem nánast krefur mann til að stoppa og hlusta - og ósjálfrátt tengjast núinu í kaupbæti. Þessi upplifun hefur alltaf haft sterk áhrif á mig og hefur mig lengi langað að fanga hana í söngtexta,“ segir Marína.
Lagið er komið út á öllum helstu streymisveitum, en auk þess er hægt að finna skemmtilegt, heimagert tónlistarmyndband á YouTube.
Upptökur fóru fram í Sundlauginni í mars 2019 og sá Birgir Jón Birgisson um mix og masteringu. Ásamt Marínu Ósk leika þeir Mikael Máni Ásmundsson á rafgítar og hinn hollenski Lito Mabjaia leikur á rafbassa. Lag og texti er eftir Marínu Ósk.
Breiðskífan sjálf, Athvarf, kemur út 11. október nk.