Margrét Sanders: Snýst um framtíðarsýn
„Þetta snýst allt um framtíðarsýn og góð lífskjör. Af hverju vil ég búa hérna, það er af því að hér er gott að búa mikil tækifæri. Við erum sætasta stelpan á ballinu, Suðurnesin saman, við erum miklu sterkari saman. Það er nauðsynlegt að sjá þessar upplýsingar og staðreyndir á blaði til að vera viss um að við séum á réttri leið og því er þetta samstarf okkar við Keili frábært. Þetta á ekki að snúast um tilfinningar heldur rök,“ segir Margrét Sanders í áhugahópi um framþróun og eflingu Suðurnesja.
En hvað segir gamli Njarðvíkingurinn þegar við rifjum upp að sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994 var ekki þrautalaus og margir Njarðvíkingar voru ekki á neinum sameiningarbuxum.
„Við vorum of mikið í tilfinningum og erum það enn í mörgum málum. Ég fer á leiki með mínu félagi, Njarðvík og styð það. Slíkar tilfinningar fara ekki neitt þó Reykjanesbær sé okkar sameinaða sveitarfélag í dag.“
Margrét segir að það sé engin spurning að sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna 1994 hafi verið mikið gæfuspor og það sé ekki víst að hin nýja bjarta staða á svæðinu væri eins björt nema vegna sameiningarinnar. Tækifærin séu á Suðurnesjum og það séu allir að tala um það.
Áhugahópur um framþróun og sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur gert samkomulag við skólasamfélagið Keili á Ásbrú um að greina möguleika á því að auka lífsgæði og gera Suðurnesin eftirsóknarverðari til framtíðar. Nemendur á svokallaðri háskólabrú Keilis munu vinna verkefnið næsta haust og ljúka því um áramót, í síðasta lagi næsta vor. Margrét er einn af fjórum einstaklingum frá Suðurnesjum sem skipar áhugahóp um eflingu Suðurnesja og sameiningu sveitarfélaga.
Hér að ofan má sjá viðtalið við Margréti Sanders í heild: