Fimmtudagur 30. ágúst 2012 kl. 12:54

Ljósanótt 2012 sett í morgun - video

Ljósanótt var sett með pomp og prakt í morgun þegar nemendur leik- og grunnskóla bæjarins slepptu ríflega 2000 blöðrum til himins.

Framundan er gríðarlega fjölbreytt dagskrá sem hefst strax kl. 13:00 með opnu púttmóti í boði Toyota í Reykjanesbæ . Seinnipartinn hefst svo listaveislan þegar myndlistarsýningarnar opna hver á fætur annarri um allan bæ. Kl. 18:00 opnar sýningin Allt eða ekkert í Listasafni Reykjanesbæjar sem er samsýning 55 listamanna af Suðrunesjum.  Þaðan er tilvalið að þræða sýningar upp eftir allri Hafnargötunni þar sem margt ótrúlega spennandi er á boðstólum í myndlist og handverki. Margir hafa tekið upp þann skemmtilega sið að skarta hatti eða öðru höfuðfati á þessum degi sem setur skemmtilegan svip á mannlífið.

Fleira skemmtilegt er á dagskránni í dag, m.a. sagnakvöld á Nesvöllum, tónleikar Jönu Maríu Guðmundsdóttur í Duushúsum og Niceland tónleikar á planinu við Hafnargötu 12. Hvað viðburði helgarinnar snertir má nálgast allar upplýsingar um þá á vefnum ljosanott.is.