Ljóðið lifir góðu lífi
segir Gunnhildur Þórðardóttir, myndlistarkona, kennari og ljóðskáld. Skáldaskápur á ferð um Suðurnesin
„Ég held að það sé gott fyrir fólk að skrifa niður þó það deili því ekki endilega með öðrum,“ segir Gunnhildur Þórðardóttir sem stendur fyrir verkefninu Skáldaskápur sem er hugarfóstur listamannsins og var formlega opnað á Degi íslenskrar tungu í nóvember 2019.
„Ég er pínu gamaldags, er alltaf með litla minnisbók á mér sem ég skrifa í við hin ýmsu tækifæri. Ljóðagerðin hjálpaði mér þegar ég var yngri og í tilfinningaróti unglingsins.
Efnið í ljóð Gunnhildar koma úr ýmsum áttum en hún er menntuð myndlistarkona og myndskreytir ljóðin sín. Hún segir ljóðið lifa góðu lífi og bendir á þá staðreynd að metfjöldi ljóðabóka hafi verið gefinn út á síðasta ári.
„Fólk hefur áhuga á ljóðum. Þau segja alltaf einhverja sögu og ég segi að ljóðið sé langt frá því að vera dautt, þrátt fyrir samfélagsmiðla á tækniöld. „Þetta er góð og heilbrigð leið fyrir krakka að semja ljóð eða skrifa texta. Svo fer þetta vel með tungumálinu okkar og styrkir íslenskuna,“ segir Gunnhildur.
Listaverkefnið Skáldaskápur var formlega opnað laugardag 16. nóvember 2019 á Degi íslenskrar tungu og var fyrstu tvo mánuðina í Bókasafni Reykjanesbæjar. Listamaðurinn fór næst með það í Bókasafn Sandgerðis og hugmyndin er síðan að fara með það í fleiri bæjarfélög á Suðurnesjum. Markmið Skáldaskáps er að hvetja íbúa Suðurnesja til að semja ljóð, smásögur, vísur, kvæði og efla skapandi skrif. Verkefnið er samfélagslegt þar sem allir íbúar, óháð kyni, aldri, þjóðerni og tungumáli, eru hvattir til þess að taka þátt. Verkin eru sýnd í sérstökum skáp frá Byggðasafni Suðurnesja en það er hægt að fylgjast með viðburðum á Facebook-síðu Skáldaskáps facebook.com/Skaldaskapur-Poetry-Cupboard og senda efni á [email protected].