Litríkur karakter með munninn fyrir neðan nefið
Engin helvítis ævisaga er safn sagna um einn eftirminnilegasta karakter íslenskrar íþróttasögu, knattspyrnuþjálfarann Kjartan Másson sem þótti engum líkur á sínum tíma.
Það er Sævar Sævarsson sem tók saman aragrúa af skondnum sögum frá þjálfaratíð Kjartans en hann var þekktur fyrir hörku, útsjónarsemi og að láta allt flakka – Kjartan talaði „íslensku“ sem skildist. Stefán Jónsson myndskreytti bókina en skemmtilegar myndir hans glæða sögurnar lífi.
Kjartan fékkst við þjálfun í frítíma sínum en hann starfaði sem leikfimi- og sundkennari og var einnig um tíma vallarstjóri hjá Keflavík. Kjartan fór oft óhefðbundnar leiðir í sinni þjálfun enda var hann sín eigin fyrirmynd.
Sævar sagði viðtökur við bókinni hafa verið vonum framar en hann þurfti að hafa svolítið fyrir því að fá Kjartan til að leyfa sér að skrifa bókina. „Ég skrifaði grein fyrir Keflavík um Kjartan og ákvað að vanda sérstaklega til verka þar sem ég var búinn að minnast á þetta við hann. Að lokum fór svo að hann féllst á að ég myndi skrifa svona safn af stuttum sögum, eða eins og hann sagði: „Þetta verður engin helvítis ævisaga!“
Ég var fljótur að samþykkja það og hér er afraksturinn,“ sagði Sævar og bætti við: „Það væri hægt að gefa út heila ritröð með sögum af Kjartani enda af nægu að taka.“
Sævar hefur haft í nógu að snúast við að keyra út eintökum af bókinni en hana er hægt að kaupa á síðunni millilending.is og þá fæst bókin einnig í Nettó.
Hér má sjá innslag með stuttum viðtölum við þá félaga en einnig lengra viðtal við Kjartan Másson.