Litla brugghúsið í Garði vaxið hratt á tveimur árum
Litla brugghúsið var stofnað árið 2020 og var fyrsta brugghúsið á Suðurnesjum. Litla brugghúsið sérhæfir sig í vönduðum handverksbjór. Mikið hefur gerst hjá Litla brugghúsinu í Garðinum síðan það hóf starfsemi fyrir tveimur árum síðan. Það hóf starfsemi með 100 lítra potta en stækkaði fljótlega í 300 lítra potta. Í dag er fyrirtækið komið með 1500 lítra potta, þannig að afkastagetan hefur verið aukin umtalsvert. Litla brugghúsið verður samt áfram lítið brugghús og er langt frá því að komast yfir þau mörk sem sett eru í breyttum áfengislögum, sem heimila sölu á áfengi á framleiðslustað.
„Það er ákveðinn áfangi að frumkvöðull sé ennþá starfandi eftir tvö ár og ég tala nú ekki um þegar hann nær að dafna eins vel og Litla brugghúsið hefur gert. Félagið byrjaði með eina tegund af bjór en er nú með fjórar tegundir í fastri framleiðslu auk tveggja húsbjóra á hótelum á svæðinu. Þá er Litla brugghúsið með fleiri bjóra í þróun og þar á meðal léttbjór sem verður fimmta tegundin í reglulegri framleiðslu,“ segir Kristján Carlsson Gränz hjá Litla brugghúsinu.
Enginn á launum
Nokkrir einstaklingar eiga Litla brugghúsið, auk þess sem Eignarhaldsfélag Suðurnesja kom nýverið inn í eigendahópinn. Eigendurnir segja brugghúsið vera dýrt áhugamál sem stendur en enginn fær greidd laun á meðan félagið er í uppbyggingu og allir fjármunir sem koma inn eru notaðir í uppbyggingu og vöxt Litla brugghússins.
Litla brugghúsið fékk nýja flöskuvél í sumar. Það tekur vélina þrjár klukkustundir að pakka 1500 lítrum en vélin sem var fyrir hjá brugghúsinu var tvo daga að pakka sama magni. „Vöxturinn hefur verið gífurlega góður og við stefnum ótrauðir áfram og ætlum að láta til okkar taka, auka fjölbreytni og sinna viðskiptavinum okkar eins vel og við getum,“ segir Kristján. Hann bætir því við að Litla brugghúsið vilji sjá fyrirtæki í Flugstöð Leifs Eiríkssonar taka betur í það að bjóða upp á heimabjór eða local-bjór, sem margir ferðamenn leitast eftir.
Hvað er vinsælast í ykkar framleiðslu?
„95% af framleiðslunni er í lagerbjórum en við erum einnig að selja mikið af Skeggja, sem er 8,4% bragðsterkur pipar porter og eins langt frá lagerbjór og hægt er. Vinsælasti bjórinn er Bergið, sem er næst því að vera lagerbjór,“ segir Davíð Ásgeirsson.
Framleiðsla Litla brugghússins er í boði á þremur hótelum á Suðurnesjum eins og staðan er í dag og viðræður í gangi við fleiri hótel að bjóða upp á framleiðslu brugghússins. Tvö af þessum hótelum eru einnig með sérstaka húsbjóra sem fara út í kútavís, segir Davíð.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur sem handverksbrugghús að fá áfengissöluleyfi?
„Það hefur mikla þýðingu þar sem margir ferðamenn sem koma hingað vilja smakka bjór og kaupa svo kippu eða tvær. Hingað til höfum við ekki mátt selja þeim þennan bjór og þurft að vísa fólki á þá vínbúð sem selur bjórinn. Með þessari breytingu geta ferðamenn komið og smakkað fjórar eða fimm tegundir og keypt svo fyrir ættingja heima. Einnig ef þú ert að fara að halda heimatónleika á Ljósanótt eða gott heimapartý á Suðurnesjabæjardögum, þá getur þú komið til okkar og verslað beint og við getum einnig útvegað ferðadælur fyrir kúta. Við getum einnig afgreitt bjór í gleri,“ segir Kristján.
Sjarmi yfir bjór á flöskum
Þeir félagar í Litla brugghúsinu segja sjarma yfir því að vera með bjór á flöskum og hafa nýlega fjárfest í öflugri pökkunarvél fyrir flöskubjórinn. Bjór á dósum hefur verið til skoðunar en það verður þó ekki í nánustu framtíð á meðan fjárfestingin í flöskuvélinni er að borga sig.
Í dag er Litla brugghúsið á meðal tuttugu og fimm handverksbrugghúsa á landinu sem svo skipta með sér um tveimur prósentum af bjórsölu á Íslandi. Davíð segir samkeppni á milli handverkshúsanna en einnig er gott samstarf á milli þeirra. Þau hafi verið að aðstoða hvert annað með ákveðin hráefni til framleiðslunnar.
Bjórar Litla brugghússins eru fáanlegir í Vínbúðinni og Bjórlandi. Bjórarnir eru einnig fáanlegir á Courtyard by Marriott, Hótel Keflavík, Café Petite, Hótel Berg, Paddy’s, Lighthouse Inn, Langbest og Antons Mamma Mia. Allir bjórar Litla brugghúsins eru ósíaðir, ógerilsneyddir, án rotvarnarefna og án viðbætts sykurs. Byggið er frá Þýskalandi og Belgíu. Humlarnir eru frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Þýskalandi.
Þrír jólabjórar
Árstíðabundnir bjórar hafa notið vinsælda. Fyrir síðustu jól var Litla brugghúsið með einn jólabjór, piparkökubjórinn Jólahvað?, en um næstu jól verða þeir þrír. Ekkert verður þó upplýst strax hverjir þeir verða, enda ávallt mikil spenna fyrir jólabjórum sem eru í raun mest seldu bjórarnir á Íslandi. Hefð er fyrir því að fólk komi saman í jólabjórasmakki og smakki alla íslensku jólabjórana.
Bjórhlaup á Suðurnesjabæjardögum
Litla brugghúsið mun standa fyrir svokölluðu bjórhlaupi á bæjarhátíðinni í Suðurnesjabæ. Þann 27. ágúst kl. 16:00 verður lagt upp í hlaupið frá Víðishúsinu og hlaupið verður að brugghúsi Litla brugghússins með stoppi á nokkrum bjórstöðvum á leiðinni þar sem hlauparar verða að væta kverkarnar. Hlaupin verður svokölluð bjórmíla og stoppað á 400 metra fresti þar sem þarf að ljúka við einn bjór. Þátttakendur þurfa að gæta þess að halda jafnvægi og hlaupa ekki of hratt. Hlaupið mun ekki snúast um hver verði fyrstur, heldur meira um að hafa gaman. Hugmyndin er að hlaupið verði árlegur viðburður og miðað við skráningu í fyrsta bjórhlaupið má búast við góðri stemmningu.