Lífsreynsla úr sjóslysi, frisbígolf og galdrastrákur í Suðurnesjamagasíni
Lífsreynslusaga úr alvarlegu sjóslysi, galdrastrákurinn Harry Potter og frisbígolf í Reykjanesbæ eru viðfangsefni okkar þessari viku en fertugasti þáttur ársins af Suðurnesjamagasíni er frumsýndur á vf.is og sjónvarpsstöðinni Hringbraut á fimmtudagskvöldi kl. 20:30
Kristbjörg Kamilla Sigtryggsdóttir, þrítug kona úr Suðurnesjabæ lenti í alvarlegu slysi síðsumars við árekstur sjóþotu og slöngubáts. Í viðtali við Víkurfréttir segir hún frá þessari lífsreynslu sinni en í slysinu missti hún um helminginn af blóði líkamans og hægri löppin hékk öfug á henni og lærleggurinn var í sundur. Hilmar Bragi ræddi við Kristbjörgu í þættinum.
Ari Sigurjónsson stundar frisbígolf og er á fullu þessa dagana við að kynna íþróttina fyrir Suðurnesjafólki. Á Suðurnesjum eru vellir í Reykjanesbæ, Grindavík og Vogum. Jóhann Páll hann hitti Ara á frisbígolfvelli í Njarðvíkurskógum í Reykjanesbæ.
Galdrastrákurinn Harry Potter varð fertugur í sumar og í tilefni þess var sett upp sýningin „Galdraheimur bókmenntanna“ í Bókasafni Reykjanesbæjar þar sem hægt var að skoða ýmsar galdraverur eins og drauga og húsálfa. Harry Potter hefur heillað marga í gegnum tíðina og Víkurfréttir fréttu af tveimur stelpum í Reykjanesbæ. Þær heita Ylfa Vár Jóhannsdóttir, þrettán ára, og Sunna Dís Óskarsdóttir, tólf ára, og halda mikið upp á Harry Potter. Við fengum þær til að svara nokkrum spurningum um söguhetjuna og þær gerðu gott betur með því að mæta í búningum úr sögunum.