Líflegt Suðurnesjamagasín Víkurfrétta
Suðurnesjamagasín Víkurfrétta er á dagskrá Hringbrautar og vf.is í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:30. Þátturinn er bæði líflegur og fjölbreyttur.
Keilir á Ásbrú og Heiðarskóli í Keflavík tóku á síðasta ári upp samstarf á sviði forritunar þar sem notast er við vélmenni. Vélmennin eru nokkurs konar armar sem hægt er að festa ýmsa aukahluti á og þeim er síðan stýrt með forritun. Heiðarskóli tók við vélmennunum á haustmánuðum og nú hafa bæði nemendur og kennarar náð góðum tökum á vélmennunum. Í skólanum er áhersla lögð á að kynna nemendum tækni og notast er við fjölbreyttar tölvur á öllum skólastigum í Heiðarskóla.
Sjö dansarar listdansskólans Danskompaní í Reykjanesbæ hafa nú tryggt sér þátttöku á Heimsmeistaramótinu í dansi sem fram fer í Portúgal í sumar. Með glæsilegum árangri í undankeppni mótsins, sem haldin var um þarsíðustu helgi, komust stelpurnar allar inn í landslið Íslands í dansi en þær kepptu með ellefu atriði í undankeppninni og unnu níu þeirra til verðlauna. Danskompaní hefur um nokkurra mánaða skeið verið til húsa í nýrri aðstöðu við Brekkustíg í Njarðvík.
Fermingar eru byrjaðar hér suður með sjó. Undirbúningur fyrir stóru stundina hefur staðið yfir síðan í haust. Marta Eiríksdóttir kíkti í fermingarfræðslu í Keflavíkurkirkju og ræddi þar við fermingarbörn og séra Fritz Már Jörgensson, sem hóf störf um haustið 2017 hjá Keflavíkursókn. Innslagið er svo skreytt með myndum úr fermingarguðsþjónustu í Ytri-Njarðvíkurkirkju um síðustu helgi.
Í þættinum skoðum við einnig Krýsuvíkurbjarg með augum fuglsins og fáum fréttapakka frá Suðurnesjum.