Lífið snýst um hesta og fjölskylduna mína
– segir Jóhanna Margrét Snorradóttir, íþróttakona Reykjanesbæjar 2023.
Knapinn Jóhanna Margrét Snorradóttir úr Hestamannafélaginu Mána er íþróttakona Reykjanesbæjar 2023 en hún gerði frábæra hluti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fór fram í Hollandi síðasta sumar. Þar vann Jóhanna tvöfaldan sigur en hún keppti í fjórgangi V1 og tölti T1. Ekki nóg með að Jóhanna sé keflvísk heldur er gæðingurinn sem hún keppti á einnig af Suðurnesjum, Bárður frá Melabergi á Stafnesi.
Jóhanna, til hamingju með að vera íþróttakona Reykjanesbæjar 2023. Þú vannst til heimsmeistaraverðlauna á árinu, tveggja meira að segja.
„Takk fyrir það. Já, ég vann til tveggja heimsmeistaratitla og einna silfurverðlauna,“ sagði íþróttakona Reykjanesbæjar sem keppti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi á síðasta ári.
Þú hefur væntanlega gert eitthvað fleira en að taka þátt í heimsmeistaramóti.
„Já, ég var líka þrefaldur Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari. Þetta var alveg svakalega gott ár, ótrúlega magnað.“
Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi hlýtur að hafa verið mikil upplifun.
„Já, það stóð klárlega upp úr og var ótrúleg upplifun.“
Súrsætt kannski því þú verður að skilja við gæðinginn sem þú vannst til verðlaunanna á.
„Já, þau [hrossin] mega ekki koma aftur inn til Íslands svo við verðum að selja hestana okkar og þeir fara eitthvað annað – en ég er gríðarlega heppin því ég er í miklu sambandi við núverandi eiganda og er búin að fljúga tvisvar út til Sviss að kenna og er ég með annan fótinn þar til að hjálpa nýjum eiganda með hestinn. Ég er gríðarlega þakklát fyrir það.“
Þannig að þú ert að hitta Bárð frá Melabergi áfram.
„Já og fæ sendar myndir, þannig að ég er í miklu sambandi við hann.
Ertu komin með nýjan hest til keppnis?
„Já, ég er með tvo, þrjá keppnishesta og auðvitað stefnir maður alltaf að því að ná góðum árangri. Svona árangur er svolítið einstakur, það verður erfitt að toppa þetta.“
Hesturinn hlýtur að spila stóran þátt í þessu þótt stjórnandinn sé aðalatriðið.
„Já, það er svo margt sem spilar inn í í þessu sporti. Hesturinn þarf að vera í gríðarlega góðu formi, maður sjálfur þarf líka að vera í góðu formi á réttum tíma og taka skynsamlegar ákvarðanir, þær eru margar á bak við einn svona stóran titil.“
Líf þitt snýst í grófum dráttum um hesta, er það ekki?
„Jú, það er í raun og veru hestar og fjölskyldan mín. Það er bara svoleiðis.“
Hvort er í forgangi?
„Það er ekki hægt að segja,“ sagði Jóhanna Margrét að lokum og hló.