Föstudagur 20. febrúar 2015 kl. 10:52

Létt stemmning á kórkvöldi - myndskeið

Það var létt stemmning á kórkvöldi Kórs Keflavíkurkirkju í Kirkjulundi í á þriðjudagskvöld og fullur salur þrátt fyrir slæma færð en þar stigu á stokk karlpeningurinn í kórnum, bæði í stórum og minni sönghópum auk einsöngvara. Má þar nefna Elmar Þór Hauksson og Svein Sveinsson. Meðal dagskráratriða voru ljóðaupplestur og samsöngur og mikla kátínu vakti atriði þar sem leikið var á sög.

Undirleikari og stjórnandi var Arnór B. Vilbergsson og kynnir Kristján Jóhannsson. Fjöldasöng stjórnaði Sólmundur Friðriksson.

Bræðurnir Ormsson buðu upp á þorramat og einnig var boðið upp á heimagert hnossgæti frá kórfélögum og kaffi. Safnað var frjálsum framlögum í ferðasjóð kórsins en enginn aðgangseyrir eru á kvöldin sem haldin verða fram á vor einu sinni í mánuði.

Næsta kórkvöld verður þriðjudaginn 17. mars en þar mun stíga á stokk talent úr röðum kórsins, Sólmundur Friðriksson, en hann mun flytja eigið efni ásamt gestum.