Laufabrauð eftir uppskrift ömmu
Það var heldur betur jólastemmning í Hólshúsi í Sandgerði á dögunum. Þar var samankomin stórfjölskylda í laufabrauðsgerð en siðurinn hefur haldist fjölskyldunni í næstum fimm áratugi.
„Þetta hófst allt á Melbrautinni í Garði þegar við vorum börn,“ segja þær Guðríður S. Brynjarsdóttir og Helga Hrönn Ólafsdóttir en mæður þeirra, Berta og Svana Jakobsdætur og Alla amma þeirra, sem var ráðskona á Garðvangi í Garði, skáru alltaf út og steiktu laufabrauð í aðdraganda jóla. Laufabrauðsdagurinn varð stærri með hverju árinu eftir því sem fjölgaði í fjölskyldunni. Berta lést um þetta leyti fyrir tuttugu árum en stórfjölskyldan ákvað að halda í siðinn og hefur síðustu tvo áratugi komið saman í Hólshúsi í Sandgerði. Síðasta laugardag voru þar fjórir ættliðir að skera út laufabrauð. Gerðar voru átta uppskriftir eða um 400 kökur. Helmingurinn er eftir hefðbundinni uppskrift og helmingurinn með kúmeni. Uppskriftin er frá ömmu þeirra, Aðalbjörgu Valentínusdóttur, frá Hömrum í Reykholtsdal.
Þær Helga Hrönn og Guðríður, eða Gauja, segja að þegar flest hefur verið þá hafi 50 manns verið að skera út. Laufabrauðsdagurinn sé hálfgert ættarmót í aðdraganda aðventunnar. Þarna komi fólk saman og eigi góðan dag þó svo ekki taki allir þátt í laufabrauðsgerðinni. Allir koma með eitthvað til að hafa með kaffinu og svo borða allir saman um kvöldið.