Langhlaup framundan í Grindavík næstu ár
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að framundan sé langhlaup í Grindavík þegar kemur að endurteknum kvikuinnskotum og eldgosum á Sundhnúkagígaröðinni. Magnús var gestur á fjölmennum fundi fyrir atvinnurekendur í Grindavík, sem haldinn var á Sjómannastofunni Vör í dag. Á fundinum fór hann yfir mögulega þróun varðandi eldgos og umbrot í og við Grindavík og áhrif þess á atvinnulíf í bænum. Gera verði ráð fyrir að ástandið sem nú ríkir verði viðvarandi í einhver ár til viðbótar.
Böðvar Tómasson verkfræðingur hjá Örugg verkfræðistofu ehf. kynnti á fundinum gerð öryggisáætlana og fjallar um almennar og sértækar kröfur vegna aðstæðna í bænum.
Magnús Tumi segir lítið pláss orðið eftir í jarðskorpunni og því komi meira upp af hrauni eins og hafi sýnt sig í þeim eldgosum sem orðið hafi á Sundhnúkagígaröðinni síðustu vikur. Kvikugangurinn sem varð til í hamförunum þann 10 nóvember 2023 hafi tekið við
Haldi þessi virkni áfram verði þetta fyrst og fremst hraun sem komi upp og það passi við söguna. Nú eru komin upp 10-15% af því sem kom upp þegar Sundhnúkasprungan var virk fyrir 2000 árum.
„Það er líklegt að það muni gjósa meira og verði svona atburðir. Að það gjósi hér inni í Grindavík, það er ekki hægt að útiloka það en líkurnar eru ekki miklar og þá er það jarðsagan og þessar aðstæður sem segja okkur til um það.“
— Þú sérð ekkert því til fyrirstöðu að það sé hægt að hefja starfsemi í Grindavík sem fyrst?
„Ef að innviðir eru í lagi þannig að hægt sé að reka atvinnustarfsemi hérna þá myndi ég segja að það er sjálfsagt að gera það. Hvert fyrirtæki er þá með viðbragðsáætlun og er tilbúið að rýma með stuttum fyrirvara ef óróahrina fer aftur af stað með innskoti og líklegu gosi. Þá á alveg að vera tími til að rýma og ganga þokkalega frá og fara. Það er bara áhætta sem verður að taka. Þá er hægt að vinna hérna, miðað við núverandi aðstæður 80-90% af tímanum í bænum. Þá er hægt að halda fyrirtækjum og framleiðslu gangandi. Þá minnkar tjónið án þess að auka áhættuna sem heitið getur.“
Ítarlegt viðtal við Magnús Tuma er í spilaranum hér að ofan. Fundinum verður einnig gerð nánari skil í Suðurnesjamagasíni síðar í vikunni og birt fleiri viðtöl sem tekin voru á fundinum.