Landað úr frystitogara sem setti nýtt aflamet
„Við viljum stækka, það vantar að fá fleiri aðkomubáta til Grindavíkur en sömuleiðis getum við sinnt bátum og skipum utan Grindavíkur“ segir Elvar Hreinsson, framkvæmdastjóri Klafa löndunarþjónustu ehf.
Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson frá Grindavík, sem er í eigu Þorbjarnar hf., kom í land mánudaginn 4. apríl eftir 35 daga veiðiferð þar sem gekk á ýmsu, bæði tengt Covid og eins veðráttunni sem hefur herjað á Ísland meira og minna á þessu ári. Þrátt fyrir þessa erfiðleika og þá staðreynd að áhöfnin var einum færri mest allan tímann, þá varð til nýtt aflamet en þegar endanlega verður búið að ganga frá sölunni má gera ráð fyrir að túrinn sigli yfir 400 milljónir. Það var því borubrött áhöfn sem lagði að bryggjunni í Grindavík þennan mánudagsmorgun og mega þeir gera ráð fyrir að fá dýrindistertu við næstu brottför en lengi hefur tíðkast að mettúr færi áhöfninni tertu í boði útgerðarinnar.
Það er venjulega svona frétt sem vekur mesta athygli, minni gaumur er gefinn að því sem tekur við þegar skipið er lagst við bryggju – sjálfri lönduninni á aflanum. Þess vegna var sá póll tekinn í hæðina í þessari grein, að leyfa löndunargenginu að eiga sviðið að þessu sinni.
Í spilaranum hér að ofan má horfa á innslag í Suðurnesjamagasíni um löndunina.