„Lætin í okkur hafa skilað sér“
- Umhverfis- og samgöngunefnd fundaði í morgun um mengun frá United Silicon
„Það er jákvætt að Alþingi taki þetta mál upp. Það sýnir að lætin í okkur hafa skilað sér,“ segir Dagný Halla Ágústsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ, en hún sat fund Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Á fundinum var rætt um málefni kísilverksmiðjunnar United Silicon í Helguvík en mengun þaðan hefur valdið íbúum í nágrenninu ýmsum óþægindum undanfarna mánuði.
Meðal fundarmanna voru Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon og Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.
Þórólfur Júlían Dagsson var fulltrúi íbúa á fundinum. Eftir fundinn sagði hann gott að sjá að þrýstingur íbúa hafi skilað sér og náð eyrum alþingismanna. Hann sagði sárlega vanta að sjónarmið lýðheilsu væru sett í lög um stóriðju hér á landi.