Lærði að henda í vél
Við áramót - Sigvaldi Lárusson
Eftirminnilegast er klárlega havaríið í kringum Helguvík, gríðarleg og jákvæð uppbygging ferðamennsku á svæðinu en við mættum þó gera betur í að halda ferðamönnum hér á svæðinu og frábær árangur Arnórs Ingva með landsliðinu. Þá finnst mér afar sorglegt að akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis skuli ekki vera á niðurleið, en það er eitthvað sem ég vil að við breytum á þessu ári og ekki má gleyma frábærum árangri 6. flokks UMFN sem vann sinn riðil á Orkumótinu í Eyjum í sumar. Ég lærði að henda í vél, segir Sigvaldi Lárusson, maður ársins á Suðurnesjum 2015, þegar hann rifjar upp árið 2016.
Hver finnst þér hafa verið mest áberandi Suðurnesjamaðurinn á árinu 2016?
Mér finnst allir björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum koma hér til greina. Þetta er fólk sem við þurfum því miður allt of oft að reiða okkur á og í starfi mínu hef ég séð hvers konar fagmennska þarna er, og allt í sjálfboðavinnu. Væri ég með hatt þá tæki ég hann ofan fyrir öllu þessu fólki. En nota hér með tækifærið og segi bara takk við þau öll.
Hver fannst þér vera stærstu málin á Suðurnesjum 2016?
Stærstu málin á Suðurnesjum 2016 voru Helguvík, ferðamenn og bílaleigur. Garðar snappari kom sterkur inn, frábærir íþróttamenn og konur, Valdimar.
Hvernig sérðu Suðurnesin á nýju ári?
Á nýju ári vil ég sjá okkur hætta ræða neikvætt um svæðið okkar, tölum jákvætt um okkur sjálf og styrkjum okkur á allan hátt. Rétta hugarfarið er: Horfðu eingöngu á það jákvæða og lífið verður margfalt skemmtilegra.